Færsluflokkur: Rúnir
28.10.2015 | 21:24
Rúnir
Rúnir hafa verið til frá aldaöðli og þær eru oft tengdar við örlaganornirnar Urði, Verðandi og Skuld. En auk þess eru rúnir gamalt bókmál og uppspretta galdrastafa þar sem fleiri en ein rún voru samansettar. Orðið rún er upphaflega talið merkja leyndarmál og sá sem kunni að rýna í rúnir vissi því meira en aðrir.
Rúnir tengjast norrænni goðafræði, leyndardómur þeirra birtist Óðni þegar hann hékk níu nætur á Aski Yggdrasil (lífsins tré), án matar og drykkjar, stunginn síðusári. Rúnir eru taldar hafa forspárgildi og er vísað til þess þegar rýnt er í rúnirnar á þessari síðu. Sjá meira um sögu rúnanna,,,
Fengur; eignir, ágóði sjá meiraUxi; þrek, þolinmæði sjá meiraÞurs; ógn, uppgjör sjá meiraÁs; ábending, innsæi sjá meiraReið; vegvísir, ferðalag sjá meiraKaun; þjáning, leiðarljós sjá meiraGjöf; virðing, kærleikur sjá meiraVernd; þægindi, umbun sjá meira
Hagl; upplausn, eyðing sjá meiraNauð; þvingun, þörf sjá meiraÍs; kyrrstaða, vonbrigði sjá meiraJörð; tímamót, uppskera sjá meiraEir; sveigjanleiki, styrkur sjá meiraPottur; leyndardómur, örlög sjá meiraElgur; hugrekki, fordæmi sjá meiraSunna; lífsorka, árangur sjá meiraTýr; leiðtogi, skipulag sjá meiraBjörk; hæfileikar, þroski sjá meiraJór; tækifæri, kjarkur sjá meiraMennska; sjálfsmynd, kunnátta sjá meiraLögur; þolinmæði, útsjónarsemi sjá meiraYngvi; karlmennska, traust sjá meiraDögun; viðsnúningur, vitundarvakning sjá meiraÓðal; uppruni, æskustöðvar sjá meira
Rúnir | Breytt 18.12.2015 kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2015 | 21:50
Saga rúnanna
Enginn veit nákvæmlega hversu gamlar rúnir eru, orðið rún er talið vera norrænt og merkja leyndarmál eða ráðgáta.
Rúnir eru sagðar um 2000 ára gamalt letur sem rakið er til germanskra þjóða í Austur- og Mið-Evrópu. Síðar eiga þær að hafa breiðst út til Norður-Evrópu,loks til Norðurlanda, Bretlandseyja og Íslands. Þær eru af viðurkenndum fræðimönnum taldar hafa þróast út frá grískum, etrúskum og rómönsku latínu letri og jafnvel fleiri leturgerðum. Margir hafa þó orðið til þess að benda á að rúnir gætu átt sér mun eldri og víðtækari uppruna. Bent hefur verið á að furþark rúnastafrófið sem einkum er eignað germönskum þjóðum sé sláandi líkt rúnastafrófi sem þjóðflokkur Göktürk notaðist við í Mið-Asíu. Þá eru rúnirnar komnar í þá slóð sem Snorri Sturluson rekur þegar hann greinir frá goðafræðinni og því hvernig æsir fluttust til norðurlanda frá Svartahafsströndum.
Rúnir tengjast norrænni goðafræði sterkum böndum, leyndardómur þeirra birtist Óðni þegar hann hékk níu nætur stunginn síðusári á Aski Yggdrasils, án matar og drykkjar. Í 138. erindi Hávamála segir svo um sjálfsfórn Óðins: Veit ég, að ég hékk vindga meiði á nætur allar níu, geiri undaður og gefinn Óðni, sjálfur sjálfum mér, - á þeim meiði er manngi veit hvers hann af rótum renn. Hann kenndi síðan Freyju merkingu rúnanna sem í staðinn kenndi honum seið. Heimdallur færði þær síðan íbúum Miðgarðs.
Óðinn er m.a. guð visku og skáldskapar í norrænni goðafræði, galdra og spádóma og því tengjast rúnirnar þessum þáttum sterkum böndum. Rúnir eru oft tengdar forlaganornunum Urður, Verðandi og Skuld sem spunna mönnunum örlög þar sem þeir höfðu mismikla gæfu til að bera.
Tacitus segir svo frá í Germaníu 98 e. Kr.: Þeir sníða grein af aldintré og hluta í smábúta, er þeir aðgreina með mismunandi merkjum; strá svo bútunum án greinarmunar og af handahófi á hvítt klæði. Að því búnu kemur prestur þjóðflokksins, ef spáfréttin er fyrir alþjóðar hönd en annars heimilisfaðirinn, lítur hann upp til himins og ákallar guðina, en tekur því næst hvern bút þrisvar upp. Þýðir hann svo hlutkestið af merkjum þeim er á bútana voru sett. Þó fræðimenn leggi mikið upp úr Gemaníu texta Tactusar bendir margt til að rúnir séu komnar mun lengra að, jafnvel frá horfnum heimi sem þá og nú er óþekktur. Í norrænni goðafræði er það Heimdallur sem sagður er hafa kennt mönnum vísdóm rúnanna, en Heimdallur var sonur Ása fæddur af níu dætrum sjávarguðsins Ægis í Jötunheimi.
Rúnakerfin, sem oftast er getið eru tvö og kölluð FURÞARK eftir hljóðan fyrstu rúnanna í kerfinu. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og er sagt í notkunn frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt kerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðallega fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi. Rúnakerfin skiptast í þrjár ættir; Freys-ætt, Heimdalls-ætt og Týs-ætt. Á víkingaöld var 16 rúna kerfið notað og fluttist það til Íslands en hafði auk þess verið notað á Norðurlöndum og Bretlandseyjum og hefur fundiat á Grænlandi og jafnvel Ameríku. Víkingarnir töldu rúnirnar vera máttugar og sögðu að þær hefðu bæði galdramátt og lækningamátt. Sumar rúnir báru töfranöfn sem nú eru orðin að kvenmannsnöfnum svo sem hugrún sem var notuð til að efla vit og sigrún sem var notuð til að vinna sigur í orrustu. Rúnir voru oft samsettar úr fleiri en einni rún til að auka mátt þeirra og nefndust þá galdrastafir.
Almennir textar í rúnaletri voru yfirleitt ekki mjög langir, rúnaletrið var einfalt og sumar þeirra merkja meira en eitt hljóð og geta því táknað marga bókstafi. Íslendingasögurnar hafa að geyma fróðleik um rúnir sem vitnað er í um víða veröld. Egilsaga greinir frá því þegar Egill Skalla-Grímsson ristir rúnir í drykkjarhorn til að eyðileggja eitur sem honum er byrlað í öli og kvað þá vísu sem hefst á þessum orðum Ristum rún á horni, rjóðum spjöll í dreyra Þegar hann hefur farið með kvæðið til enda springur hornið og gumsið fer til spillis og bjargar þar með Agli frá þessum vélabrögðum. Eins segir sagan frá því þegar bóndadóttir ein lá fársjúk eftir að henni höfðu verið ristar meinrúnir. Með rúnakunnáttu sinni læknaði Egill stúlkuna þegar hann afmáir meinrúnirnar og ristir nýjar rúnir á rúmstokk hennar og lét þá þessi varnarorð fylgja; Skalat maður rúnir rista, nema ráða vel kunni. Egill Skallagrímsson, er einn þekktasti víkingur allra tíma, illvígur og óvæginn en samtímist eitt mesta skáld þess tíma auk þess að hafa þekkingu á mætti rúnanna sem veitti honum margvíslega yfirburði.
Íslenskar rúnaristur hafa aðallega fundist grafnar á legsteina frá 1300-1700, eftir að þeir fóru að tíðkast. Þó má telja líklegt að frumrit íslendingasagnanna hafi verið skráð með rúnum í skrám sem Snorri Sturluson ofl. varðveittu hundruðum ára síðar með því að láta skrifa þær upp með latnesku letri. Þó svo rúnir séu taldar hafa verið hvað lengst í almennri notkun á Íslandi er fátt sem finnst því til staðfestu annað en legsteinar. Ástæðan gæti hugsanlega verið sú að kirkjan taldi þær til galdraiðkana. Skipunarbréf erkibiskupsins í Niðarósi 1334, 1342 og 1346 (en biskuparnir á Íslandi heyrðu undir Niðarós á þeim tíma) fyrirbauð mönnum að fara með lyf, galdra og hindurvitni að viðlögðu guðs banni. Kirkjan virðist þó ekki hafa barist af alefli gegn rúnum fyrr en eftir siðaskiptin. Telja má að Kýraugastaðasamþykkt Odds biskups Einarssonar árið 1592 hafi markað tímamót, en þar eru galdrar, rúnir og særingar lögð að jöfnu.
Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625 með aftöku Jóns Rögnvaldssonar, en fáein rúnablöð urðu honum að falli. Þetta gerist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu hófust og voru þær þá þar í rénun. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir rúnafróða menn því að þekking þeirra var lögð að jöfnu við galdra, djöfuldóm og trúvillu sem náði hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi. Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir rúnagaldur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur árið 1625 í Svarfaðardal við Eyjafjörð. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, en slíkt bauð heim galdragrun og djöfullegum dauða í eldi. Það sérstaka við íslensku galdrabrennurnar er að þar voru karlmenn aðallega bálinu að bráð.
Á síðustu öld spann Þýskaland nasismans sinn örlagavef með myrkum öflum, þar sem rúnir komu við sögu. Hinn kynngimagnaði hakakross var merki nasistaflokksins og þriðja ríkis Hitlers. Hakakrossinn er víða til í táknfræði og er þar kenndur við sólarhjólið. Það voru krosslagðar sólrúnir sem mynduðu hinn illræmda hakakross og tvær þeirra hlið við hlið voru notaðar sem tákn ss sveitanna. En sól-rúnin stendur m.a.fyrir þrumufleyginn, sem var ginnhelgasta tákn Þórsdýrkenda. Gunnfánar, skyldir og jafnvel skriðdrekar voru merktir fornum rúnum. Ástæðan fyrir því að nasistar völdu þessi tákn var ekki einvörðungu vegna trúar þeirra á að þær væru germanskar að uppruna, heldur ekki síður vegna þess að hugmyndfræðingar þeirra trúðu á töframátt rúnanna. Sennilega hefur nasismanum tekist að koma meira óorði á rúnirnar og vísdóm þeirra en galdrabrennur fyrri alda.
Nú á tímum eru rúnir einkum notaðar til gamans s.s.til tattooskreytinga og spádóma. Líkt og í bollalestri og tarrotspilum þá eru þær taldar hafa forspárgildi um örlög fólks. Í eðli sínu fela spádómar í sér ákveðna forlagagatrú en það á þó ekki alltaf við um rúnaspádóma. Vísdómur rúnanna getur fengið fólk til að hugleiða sitt eðli og umhverfi. Rúnirnar gefa sjaldan skýr svör um framtíðina en leiðbeina hvernig hægt er að hafa áhrif á hana. Flestir vita að þeir sjálfir hafa mest áhrif á það hvernig eigið líf þróast. Það má samt segja að skapanornirnar spinna örlagavefinn sé þeim látin tiltrúin í té og þar sé hver sinnar gæfu smiður.
Rúnir | Breytt 27.7.2021 kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2015 | 21:52
Dögun
Dögun Dagaz; ) viðsnúningur, vitundarvakning, skýrleiki dagsbirtunnar öfugt við óvissu næturinnar. Fornar menjar benda til þess að rúnin dögun hafi verið tákn fyrir ljós nýs dags í yfir fjögur þúsund ár. Dögunin vekur upp fjölda hugsjóna og vona. Þessi vakning leiðir til þess að ekki þarf lengur eitt rétt svar, fleiri en einn sannleikur getur verið boði. Engin ein trú eða sjónarmið verður nægileg, viðtekin fyrri viðhorf og sjónarmið verða smám saman yfirgefin í kyrrð hugans þar sem sannleikurinn endurómar. Rétt er að hafa í huga að rúnastafrófið hefur ekkert tákn fyrir nóttina, því verður að líta svo á að myrkrið sé hluti ljóssins. Þar sem sólin er alltaf til staðar endurkastar tunglið og stjörnurnar stundum birtunni.
Völuspá dögunarinnar; nóttin er liðin, það birtir á ný, vitundarvakning síendurtekinnar dögunar mun að lokum leiða til þeirra hugmyndafræðilegu breytinga að þú áttar þig smá saman á að jafnvel tíminn er blekking, notaður til að stjórna. Fyrir suma er þessi breyting svo stórkostleg að þeir snúa gjörsamlega við blaðinu og lifa venjulegu hversdagslífi á óvenjulegan hátt. Þú stendur á tímamótum, frammi fyrir mörgum tækifærum. Skipuleggðu verkefnin, gerðu það sem þú þarft með glöðu geði og láttu mátt eigin vilja stjórna breytingum. Dögunin fyllir þig bjartsýni til að takast á við verkefni dagsins.
Loka annmarkar dögunar; varaðu þig á að einblína á framtíðina eða haga þér kæruleysislega, þú átt heilmikla vinnu fyrir höndum. Bægðu frá þér vonleysi og svartsýni, tímamót eru ekki endalok.
Dögun hljómar bókstafinn D - Ð, frumefni eldur og loft, pólun karl, steinn grænn tópas, rún Heimdalls.
Munu ósánir
akrar vaxa
böls mun alls batna
Baldur mun koma
Búa þeir Höður og Baldur
Hrofts sigtóftir
vel valtívar
Vituð ér enn eða hvað
Rúnir | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2015 | 21:16
Ás
Ás Ansuz; ábending, boðberi, innsæi, málsnilld, samskiptahæfni. Rúnin ás hefur vafist fyrir mörgum, hún er samt talin bera í sér guðlega tengingu við Óðinn æðstan goða sem hafði til að bera gáfur, þekkingu, rök og málsnilld. Rúnin felur í sér þrjú megin hugtök; visku, samskiptahæfni og innblástur og er því talin forspá guðlegrar leiðsagnar. Undirtónn þessarar rúnar er að taka á móti og þiggja; skilaboð, ábendingar eða gjafir. Getur einnig falið í sér siðblindu þar sem beitt er brögðum sem leiða til misskilnings blekkinga og lyga. Óðinn var mikill, en óútreiknanlegur guð sem hafði alltaf sína eigin áform.
Völuspá áss; hugsanlega er þetta tákn breytinga. Nýtt líf hefst með nýjum samböndum, óvæntum tengslum sem beina okkur á nýjar brautir. Rúnin ás er einnig kennd við ós, ósinn er staður þar sem tveir heimar mætast með endalokum og nýju upphafi. Leitaðu þekkingar og vertu tilbúinn að fórna einhverju fyrir hana, Óðinn fórnaði auganu í staðinn fyrir viskuna úr Mímisbrunni og hékk níu nætur á lífsins tré til að öðlast þekkingu rúnanna. Hæfileikar þínir munu blómstra ef þú beitir þeim með þekkingu og andagift. Beittu tungunni og innsæinu til að bæta stöðu þína og til þess að láta í ljós vilja þinn og skoðanir.
Loka annmarkar áss; misskilningur, blekkingar, hégómi. Varast skal málglaða loddara, erfitt getur reynst að greina á milli visku eða fláræði sem stafar af valdagræðgi og leiðir til misbeitingar valds.
Rúnin ás hljómar bókstafina A Á , frumefni loft, pólun karl, steinn jaspis, rún Óðins og Loka.
Óss er aldingautur
og Ásgarðs jöfur
og Valhallar vísi
Júpíter oddviti
Rúnir | Breytt 26.9.2015 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2015 | 08:56
Reið
Reið Raidho; vagn, ferðalag, umskipti. Reið er rún Þórs og stendur fyrir ferð hans um himinhvolfið á þrumuvagninum. Til að njóta augnabliksins er það ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir höfuð máli og vegvísirinn er að fylgja hjartanu. Lífið er eins og ferð í rússíbana og þegar farið er í hann verður hann raunverulegur, svo máttugur er hugurinn. Ferðin getur verið upp og niður, hring eftir hring, með spennandi og hrollvekjandi uppákomum þar sem allt er litað skærum litum, og rólegt þar á milli. Orka reiðar hefur samt lítið að gera með hraða hún er síkvik, jafnvel þó það sé aðeins nokkurra skrefa ferð í ísskápinn, eða setið og hugleitt í sófanum, þá er reiðtúrinn alltaf farin í núinu.
Völuspá reiðar; er þín persónulega upplifun, þitt ævintýralega ferðalag sem erfitt er að miðla með orðum til annarra. Líklega er þessi ferð þín lífið sjálft, ánægjuleg þó þú vitir ekki alltaf hvert stefnir. Vertu rólegur, og á meðan þú bíður skaltu ryðja hindrunum úr vegi. Smám saman munu þær gefa eftir og sektarkenndin hverfa yfir því að hafa ekki alltaf tekist sem skildi. Hugsanlega skiptirðu innan skamms um starf, eða umhverfi, eða þá aðrar veigamiklar breytingar eiga sér stað. En umfram allt njóttu augnabliksins þó lífið taki óvænta stefnu. Það er alltaf hægt að segja ferðasöguna seinna, en reið er að njóta ferðarinnar sjálfrar.
Loka annmarkar reiðar; undir ákveðnum kringumstæðum getur rúnin táknað ferð milli heima, þ.e. dauða. Hjakkaðu því ekki í sama farinu, láttu ekki kjarkleysi og smávægilegar hindranir stöðva þig í að upplifa í þessum heimi það sem þú átt skilið.
Rúnin reið hljómar bókstafinn R, frumefni er loft, pólun karl, steinn kalsedón, rún Þórs.
Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver
sá er vitandi er vits
Rúnir | Breytt 12.7.2017 kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2015 | 22:32
Þurs
Þurs Thusiaz; ógn, eyðilegging, uppgjör. Hverfult afl sem rífur niður. Rúnin Þurs er rún Mjölnis, hamars Þórs og stendur fyrir óútreiknanlegri orku stríðandi afla, í baráttu jötna við Þór í þrumuvagninum. Þursið hefur sterka skírskotun til samtímans þar sem ráðandi öfl telja að best sé að tryggja friðinn með því að ráðast gegn hinu illa. Þegar þannig háttar er rétt að hinkra við, skoða fortíðina og draga ályktanir af því hvað sé raunverulega hið illa. Munurinn á Þór og þursum, frændum sjónhverfinga goðsins Loka, þarf ekki að vera auðsjáanlegur. Stundum er Þurs líkt við hvassan þyrni, fagran en illskeyttan sem enginn mannlegur máttur fær staðist.
Völuspá Þursins; þegar þú verður að berjast fyrir friði, finndu þá frið í baráttunni. Ef sjúkdómar, slys eða aðrar ófarir hafa orðið á vegi þínum bendir rún Þursins á að þú hafir verk að vinna í sjálfum þér, hjá því verði ekki komist. Því náttúruöflin og aðrir kraftar sem þú færð ekki við ráðið eru þér óhagstæðir. Skoðaðu fortíðina; gleðina, sigrana og sorgirnar, allt sem hefur stuðlað að því að þú ert hingað kominn. Besta andlega ástandið til að vinna úr stöðunni er áhugi og velvilji, sem munu gagnast við að halda vitundinni vakandi. Allt frekar en reiði eða ótti, sem munu auka hættuna á að þú þurfir að berjast við Þursið síðar af öllum lífs og sálar kröftum .
Loka annmarkar Þursins; gættu þín á lygum, svikum og hatri, án þess þó fyllast takmarkalausri tortryggni. Farðu með gát gagnvart fólki sem þú hefur ástæðu til að ætla illgjarnt og meinfýsið.
Rúnin Þurs hljómar bókstafinn Þ, frumefni eldur, pólun karl, steinn safír, rún Þórs.
Það kann eg hið þriðja
ef mér verður þörf mikil
hafts við mína heiftmögu
eggjar eg deyfi minna andskota
bíta-t þeim vopn né velir
Rúnir | Breytt 1.3.2021 kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2015 | 21:38
Týr
Týr Tiwaz; leiðtogi, herkænska, skipulag. Þessi rún vekur upp kraft til að skera á bönd þess liðna og vita hvar sannur styrkur liggur. Sá er einn ás er Týr heitir. Hann er djarfastur og best hugaður, og hann ræður mjög sigri í orrustum; segir í Gylfaginningu. Týr var nógu hugrakkur til að leggja höndina að veði svo fjötra mætti Fenrisúlf og gera þannig Miðgarð að öruggari stað fyrir mannkynið, þó svo hann missti höndina þar með. Þetta er rún leiðtogans sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Týr er rún réttvísinnar sem mun koma jafnvægi á vogaskálarnar með sanngjarnri málsmeðferð og niðurstöðu.
Völuspá Týs; hæfileikar þínir blómstra og skila þér árangri, þegar þú stendur í baráttu og ert tilbúinn að leggja fram fórnir svo réttlætinu verði fullnægt. Vertu óhræddur við að taka áhættu, en taktu hagsmuni heildarinnar fram yfir þína eigin. Beittu stjórnkænsku og vertu agaður. Þegar málefnið snýst um ástina og rúnin Týr er annars vegar, merkir það að tiltekið samband sé tímabært og stjórnist af guðlegri forsjón. Þið eigið vel saman og ykkar bíða verkefni sem þið getið leyst í sameiningu. Dygð þessarar rúnar er samvinna og þolinmæði.
Loka annmarkar Týs; varaðu þig á andlegri deyfð. Fórnaðu ekki sjálfum þér eða því sem er þér mikils virði nema að vera viss um málstaðinn. Forðastu deilur, óréttlæti og ójafnvægi.
Rúnin Týr hljómar bókstafinn T, frumefni loft, pólun karl, steinn kórall, rún Týs.
Týr er einhendr áss
ok ulfs leifar
ok hofa hilmir
Mars tiggi
Rúnir | Breytt 6.9.2015 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2015 | 07:27
Kaun
Kaun Kenaz; þjáning, opnun, eldur, innblástur. Þetta er rún opnunar, aukins skilnings, birtu sem lýsir upp myrkrið. Rúnin stendur einnig fyrir hreinskilni, þroska og innblæstri sem hlotist getur af þjáningu. Rúnin er nefnd kaun í gömlu íslensku rúnakvæði, en táknar í reynd ljós. Í vöggugjöf fær hver og einn sitt leiðarljós, kyndil sem hann verður að bera í gegnum myrkrið, afl til að búa til eigin veruleika, sem verður að hafa mátt ljóssins. En stundum getur verið nauðsynlegt grafa djúpt í myrkrið til að upplýsa þekkingu sem mun hjálpa og það getur valdið sársauka. Líkt og mistök þá eru sár (kaun) til þess ætluð að læra af þeim, vísa veginn til þekkingar.
Völuspá kauna; sársuki lýsir þér veginn í myrkrinu, mun eyða skuggum fáfræði og hjálpar þér til að sjá af sannri skynsemi. Þú hefur öðlast hæfni og styrk til að nýta kraft augnabliksins. Þó þú hafir upplifað þjáningu, jafnvel gengið í gegnum niðurlægjandi lífsreynslu, mun það gera þig að betri manneskju og mun jafnvel færa þér hamingju þegar fram líða stundir. Kaun eru því lík kyndli sem uppljómar bókasafn, vísdóm sem er hlaðinn ótakmörkuðum möguleikum. Hafðu samt hugfast landakort vísar aðeins veginn en er ekki landið sjálft. Mundu að auðmýkt er kostur góðs nemanda, því það er ómögulegt að læra það sem þú telur þig þegar vita.
Loka annmarkar kauna; ekki gera óraunhæfar kröfur og gættu þín á tálsýnum. Kúnstin felst ekki í að telja sig vita, heldur kunna. Bilið þar á milli getur leitt til lævísi og blekkinga, sem leiða ævinlega til ills.
Kaun hljómar bókstafinn K, frumefni eldur, pólun kona, steinn blóðsteinn, rún Freyju og Heimdallar.
Kaun er barna böl
ok bardaga för
ok holdfúa hús
flagella konungr
Rúnir | Breytt 29.8.2015 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2015 | 08:06
Jörð
Jörð Jera; tímamót, uppskera, frjósemi. Jörð boðar góðan árangur og á það við öll áform og framkvæmdir. Jörð er rún árs og friðar, hringferils jarðarinnar í kringum sólina. Rúnin stendur fyrir ferli þar sem réttar tímasetningar og skipulag eru grundvöllur árangurs. Hringrás árstíðanna á lítið skylt við klukku þó hún tengist tíma, sá tími á samleið með andardrætti jarðar, hrynjanda svefns og vöku, rökkurs og dögunar, sem eru sömu lögmál veita aðgang að frjósemi jarðar. Náttúran hefur sinn hátt á, þar sem ekkert verður þvingað fram. Breytingar til hins betra virðast oft léttvægar, en verða samt jafn óhjákvæmilega og ferð jarðarinnar í kringum sólina.
Völuspá jarðar; þú stendur á tímamótum, sérð árangur erfiðis þíns og hugar að næstu skrefum. Hringrás jarðar hvetur þig til bjartsýni og ráðleggur jafnframt þolinmæði, því allt tekur sinn tíma. Sýndu fyrirhyggju og skipuleggðu tímasetningar, lykilorð þessarar rúnar er eitt ár þá getur uppskeran hafist. Viðleitni þín mun koma í veg fyrir stöðnun og verða að veruleika í hringrás alheimsins, þar sem allt hefur sinn tíma. Jörð skýrir spakmæli á við "Fari svo sem fara vill, "Eins og þú sáir, svo skalt þú uppskera", og "tíminn læknar öll sár". Tímamörk í takti við hringrás jarðar kalla fram það besta í þér og hvetja til vaxtar umfram núverandi getu, til að grípa til aðgerða þegar tíminn er réttur.
Loka annmarkar jarðar; forðastu átök minnugur þess að sá vægir sem vitið hefur meira. Láttu ekki minniháttar ósigra villa þér sýn þegar það eru aðeins skyndileg stóráföll sem geta komið í veg fyrir uppskeru.
Rúnin jörð hljómar bókstafina J Y, frumefni jörð, pólun karla og kona, steinn karneol, rún Freys og Freyju.
Ár var alda
þar er Ýmir byggði
var-a sandur né sær
né svalar unnir
jörð fannst æva
né upphiminn
gap var Ginnunga
en gras hvergi
Rúnir | Breytt 6.9.2015 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2015 | 20:42
Uxi
Uxi Uruz; karlmennska, kraftur, þolinmæði, tækifæri, nýtt upphaf. Þrautseigja lífsins og óþrjótandi útsjónarsemi felst í rún Uxans. Hún er birtingarmynd endurnýjaðs þreks, líkt og nautshúðin sem stöðugt endurnýjar slitstyrk sinn. Þannig verndar orka rúnarinnar sálina fyrir sárum með sjálfsheilandi orku, heldur aftur af hverskonar sjúkdómum og illum áformum. Snýr afvegaleiddum áformum aftur til krafts og heilbrigðis, í þá mynd sem þau voru þegar þau fengu lögun og líf í tómarúmi Ginnungagaps. Uxinn er því áunnið vald mótað af sjálfi sem vill breytingar til hins betra.
Völuspá Uxans; þessi rún bendir til þess að nýtt skeið sé að hefjast í lífi þínu. Þú er heilsuhraustur, sterkur, þrautseigur, þolinmóður og kynþokkafullur. Nú er tækifæri til til að breyta sjálfum sér, lagaðu þig að kröfum þessa skapandi tíma. Lífsreglur eru bundnar þessari rún sem gera kröfu um auðmýkt og lítillæti, því til þess að geta stjórnað þarftu fyrst að kunna að þjóna. Stefndu fram á við, skref fyrir skref. Þær áætlanir sem þú hrindir í framkvæmd munu vaxa og dafna, óplægður akur mun gefa nýja uppskeru. Styrkur þinn, þrautseigja og þolinmæði vinna með þér. Hugsaðu vel um heilsuna.
Loka annmarkar Uxa; forðastu tuddaskap, losta, grimmd og frekju. Láttu ekki hroka og fáfræði verða þér fjötur um fót.
Rúnin Uxi hljómar stafina U-Ú, frumefni jörð, pólun karl, steinn smaragður, rún Þórs.
Ósnjallur maður
hyggst munu ey lifa
ef hann við víg varast
En elli gefur
honum engi frið
þótt honum geirar gefi
Rúnir | Breytt 6.9.2015 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)