Færsluflokkur: Rúnir
26.7.2015 | 09:16
Vernd
Vernd Wunjo; gleði, ljós, þægindi, rún þess sem ber ávöxt. Vernd er rún Freyju og þeirrar hagsældar sem hún stendur fyrir, rúnin tengist umbun, tilfinningu um gæsku og ánægju við að ná farsælum ávinningi, og fullkomnum árangri. Rúnin getur einnig gefið til kynna umsnúning af einhverju tagi, yfirleitt til hins betra. Vernd ber með sér viðurkenningu á verðleikum, og velgengni kemst í fastar skorður. Hún er rún lausna en ekki vandamála, rún frjósemi og unaðar umfram allt annað. Rúnin inniheldur vissuna um að allt fari vel, einnig náið samstarf og félagsskap við annað fólk.
Völuspá verndar; erfiðleikarnir eru liðnir hjá og jákvæð umskipti eiga sér stað í lífi þínu. Þú uppskerð árangur og virðingu og að vissu leiti ertu kominn til sjálfs þín. Hamingjan er þín ef þú ert tilbúin til að meðtaka hana. Til að hamingjan endist verður hún að byggja á heiðarleika. Að fela sannleikann er að fela hamingjuna. Leitaðu að því sem er gott og rétt, og gæfan mun fylgja í kjölfarið. Sú breyting sem vænst var á sér stað og nú geturðu notið blessunar hennar, hvort sem hún var í formi efnahagslegs ábata eða auknum skilningi þínum á eigin þörfum. Fagnaðu breyttum aðstæðum.
Loka annmarkar verndar; forðastu óraunsæi, öfgar og óhóf. Hafðu hemil á löngunum og beindu þeim í réttan farveg.
Rúnin vernd hljómar bókstafinn V, frumefni vatn, pólun karl, steinn demantur, rún Freyju, Frigg og Óðins.
Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn
heilyndi sitt
ef maður hafa náir
án við löst að lifa
Rúnir | Breytt 16.1.2016 kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2015 | 08:00
Yngvi
Yngvi Ingwas; karlmennska, frjósemi, traust. Yngvi er rún Freys, konunglegra dyggða og skynsemi. Rúnin ber gamalt konungsheiti stundum rakið til Yngva konungs í Tyrklandi sem jafnvel hefur verið talinn sjálfur Freyr. Yngvi er jafnframt rún einangrunar eða aðskilnaðar í því skyni að búa til aðstæður þar sem ferli umbreytinga getur átt sér stað. Þetta er rún meðgöngu innri vaxtar. Það sem oftast misferst við að ná töfrandi niðurstöðu felst í treganum við að sleppa því liðna svo það nýja geti fæðst. Allir lifa í fortíðinni á einn eða annan hátt, en til að hleypa nýrri orku að, og nýjum gildum, þarf að virða lögmál náttúrunnar, það gamla verður að fá að deyja.
Völuspá Yngva; Yngvi er einn af dvergunum sem nefndur er í Völuspár þegar gullöld ríkti á meðal goða, sem hlaut þó skjótan endi með komu þriggja þursameyja úr Jötunheimum. Yngvi er liður í hringferli, þú gætir þurft að draga þig í hlé um stund og undirbúa þig fyrir nýjan tíma með því að efla sjálfsþroska. Þegar einveran hættir að vera einmanaleiki ertu orðinn frjáls að því að heiðra nýjan stað. Rúnin markar tímamót, stórkostlegs frelsis og nýtt líf, eða nýja leið. Hún sýnir að þú hefur öðlast nægilegan styrk til að fullkomna ákveðið verk með því að vera traustur og taka af skarið. Traust ríkir þar sem þú hefur frumkvæði því þú ert ráðagóður. Hlustaðu á sjálfan þig.
Loka annmarkar Yngva; varastu tregðu til breytinga, þrældóm og óþarfa erfiði. Getuleysið felur sig í stöðnun þess sem var.
Rúnin Yngvi hljómar bókstafina N - G, frumefni jörð og vatn, pólun karl, steinn raf, rún Freys.
Álfur og Yngvi,
Eikinskjaldi
Fjalar og Frosti
Finnur og Ginnar
það mun upp
meðan öld lifir
langniðja tal
Lofars hafað
Rúnir | Breytt 10.9.2015 kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2015 | 09:38
Elgur
Elgur Algiz; er tákn hugrekkis þess öfluga dýrs sem rúnin er kennd við. Á tímum umskipta er mikilvægt að halda tilfinningunum í skefjum. Þegar Óðinn æðstur goða fórnaði sér til að öðlast vísdóm rúnanna má túlka það sem svo að hann hafi verið að setja okkur fordæmi; að fórna því sem gerir okkur lítilfjörleg, um leið losa fjötra fíkna og lasta. Elgur er sterkur orkugjafi í tilveru sjálfsins án þess að leiða til eigingirni, verndandi kennisetning sem stuðlar sjálfsforræði og trú. Hugrekki er að horfast í augu við óttan, ekki líta undan, því óttinn er viðvörun um að það þurfi að koma upp vörnum. Elgur veitir dómgreind til réttra ákvarðana. Þessari rún fylgja ný tækifæri og áskoranir.
Völuspá elgsins; Þú ert afkastamikill, hugrakkur og áræðinn. Hindrunum er rutt úr vegi og óvinir láta undan. Þessari rún fylgja því ný tækifæri og fleiri áskoranir. Horn elgsins er bæði öflug sem vopn til að verjast hættu, og til að ryðja burt hindrunum. Vertu samt vakandi fyrir því sem fer fram innra með þér og umhverfis þig. Þú getur aldrei flúið lífið með því að loka augunum fyrir því sem er. Vernd þín felst í vitneskjunni um að velgengnin muni viðhalda þeirri stöðu sem þú hefur þegar náð. Fylgdu eðlishvötinni við að yfirstíga þær hindranir sem á vegi þínum verða.
Loka annmarkar elgsins; forðastu óþarfa tortryggni og ekki forðast hættu sem þarf að yfirstíga. Eyddu ekki orku í þann óþarfa að viðurkenna ekki það sem verður ekki hjá komist að yfirstíga.
Rúnin elgur hljómar bókstafinn Z, frumefni loft, pólun karl, steinn ametýst, rún Heimdalls.
Að hyggjandi sinni
skylit maður hræsinn vera
heldur gætinn að geði
þá er horskur og þögull
kemur heimisgarða til
sjaldan verður víti vörum
Því að óbrigðra vin
fær maður aldregi
en manvit mikið
Rúnir | Breytt 10.9.2015 kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2015 | 07:44
Gjöf
Gjöf Gebo; félagskapur, traust, virðing. Þessi rún sýnir fram á samband eða félagsskap. Sannar gjafir eru tákn kærleika og frelsis, en gjöf getur líka verið skuldbinding. Gjöf er einn mesti gæfuboði rúnanna. Hún stendur fyrir það mikilvægasta sem nokkur maður getur gefið eða þegið; sanna vináttu og kærleika. Með hverri gjöf fylgir ástæða. Í Hávamálum, lífsspeki Óðins um alheims lögmálið, er þetta að finna Vin sínum skal maður vinur vera og gjalda gjöf við gjöf. ... og vilt þú af honum gott geta, geði skaltu við þann blanda og gjöfum skipta,,, eins; æ sér gjöf til gjalda, sem vísar til þess að sá sem gefur væntir þess að fá eitthvað í staðinn.
Völuspá gjafarinnar; þú nýtur áreynslulauss trausts og gæfu, gefur og þiggur. Sambönd blómstra og hugsanlega stendur þú frammi fyrir kærkominni skuldbindingu. Samt sem áður verðurðu að leggja rækt við vináttusambönd og vera fús til að stofna til nýrra með því að skuldbinda þig og sýna gjafmildi. Um leið ertu varaður við að vera ekki of eftirlátur. Sannur félagsskapur getur aðeins orðið á milli tveggja eða fleiri einstaklinga sem eru aðskildir en standa saman. Þessi ráðlegging á við hverskonar félagsskap, ekki síst við samband þitt við æðri máttarvöld. Vertu bjartsýnn og einlægur.
Loka annmarkar gjafar; mundu að æ sér gjöf til gjalda. Láttu því ekki græðgina hlaupa með þig í gönur. Forðastu varasamar gjafir sem geta leitt til gjaldskyldu og ósjálfstæðis.
Rúnin gjöf hljómar bókstafinn G, frumefni loft, pólun kona og karl, steinn ópal, rún Óðins og Gefjunar.
Veistu
ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta
fara að finna oft
Rúnir | Breytt 16.5.2016 kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2015 | 07:24
Nauð
Nauð Nauthiz; nauðsyn, þvingun, átök, og viljastyrkur til að sigrast á þeim. Rúninni nauð fylgir orka sem til verður fyrir brýna þörf. Skynsemin eru ekki alltaf auðsýnileg, því langanir og hugsjónir skyggja á það sem þörf er að gera við erfiðar aðstæður. Sem átaka rún styrkir nauð, vekur upp hugrekki og visku til að viðurkenna hvað þarf í raun að takast á við í erfiðum aðstæðum. Nauð er því rún þess sem er nauðsynlegt og ekki hægt að komast hjá. Rúnin getur falið í sér viðvörun um erfiðleika, tíma til að ástunda þolinmæði, draga ekki ákvarðanatöku og klára það sem byrjað hefur verið á.
Völuspá nauðar; þessa rún má túlka þannig að alheimurinn sé að sýna þér að þú sért að lifa lífi sem er of lítið. Sem þýðir að þér er bent á að verða þitt sanna sjálf. Lífinu er ætlað að vera gott, því er ekki ætlað að halda aftur af okkur. Nauð segir þér að taka upp þann hátt sem nær til innsta kjarna þíns og lifa samkvæmt því sem þér er mikilvægast. Mundu að það sem ekki drepur þig, herðir þig. Þessi rún sýnir fram á þær hindranir sem þú setur sjálfum þér og hins vegar hindranir af annarra völdum. Það er sitthvað að þurfa og þora, þörfin sprettur af nauðsyn. Það sem við þörfnumst og það sem við þráum þarf ekki alltaf að vera það sama.
Loka annmarkar nauðar; láttu ekki óhóf hefta frelsi þitt, né kosta þig óþarfa áreynslu. Varastu streitu og þunglyndi.
Rúnin nauð hljóðar sem bókstafurinn N, frumefni eldur, pólun kona, steinn blásteinn, rún Skuldar.
Ár skal rísa
sá er á yrkjendur fáa
og ganga síns verka á vit
Margt um dvelur
þann er um morgun sefur
Hálfur er auður und hvötum
Rúnir | Breytt 30.8.2015 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2015 | 08:43
Eir
Ýr (Eir) Eihwas; samningar, sveigjanleiki, útsjónarsemi, styrkur, ending, vörn. Eir er rún sveigjanleika og marksækni, enda stundum líkt við ývið þann og eir sem notaður var í boga og örvarodda Ullur stjúpsonar Þórs sonar Sifjar, sem sagður var svo góður bogamaður að engin mátti við hann keppast. Til að ná markmiðum getur þurft að fara krókaleiðir sveigjanleika og samninga. Eir er jafnframt rún vitundar sem opnar dyr skynjunar. Hana má nota við hugleiðslu, töfra eða til seiðmögnunar. Orka hennar bylgjast upp og niður hryggsúluna líkt og um bol lífsins tré. Það er hægt að ferðast um greinar Yggdrasil og kanna víddir þess efra sem neðra, til að öðlast guðlegan kraft við að endurhlaða vitund orku og innsæi.
Völuspá Eirs; hver raun styrkir þig svo framarlega sem hún er notuð til að afstýra ósigri. Þetta er það sama og nýta sér það sem kölluð eru mistök, en er í raun lærdómur. Farðu þér hægt, því töf getur komið sér vel þegar hvorki er staður né stund. Með því lærirðu að sniðganga það í lífinu sem veldur kvíða og óöryggi. Eir boðar þolinmæði, að hafa biðlund þegar enga þýðingu hefur að hafa frekari áhrif á gang mála. Nýttu þér tíman sem töfin gefur, vertu þrautseigur og sveiganlegur, notaðu útsjónarsemina við að setja þér markmið. Bíddu svo þess góða sem koma skal.
Loka annmarkar Eirs; forðastu þrætur og misskilning, greiddu úr ringulreið með því að koma á jafnvægi og samlyndi. Íhugaðu veikleika þína og reyndu að bæta úr þeim.
Rúnin Eir hljómar bókstafina E og Y, frumefnin eru fjögur (jörð, loft, eldur, vatn), pólun kona, steinn tópas, rún Ullur.
Ýr er bendr bogi
ok brotgjarnt járn
ok fífu fárbauti
arcus ynglingr
Rúnir | Breytt 20.11.2016 kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2015 | 06:34
Pottur
Pottur Perthro; leyndardómur, ráðagáta. Varðandi þessa rún er rétt að hafa í huga að merking hennar hefur ávalt vafist fyrir mönnum. Orðið perthro er t.d. ekki til yfir neitt annað en þessa rún. Hún hefur helst verið tengd við kvenlega eiginleika, s.s. örlaganornarinnar Urðar við suðupott hinnar eilífu hringrásar. Rúnin tengist yfirleitt góðum væntingum til fyrirfram ákveðinna örlaga. Hún er einnig rún kvenlegrar frjósemi, því stundum kennd við sköp kvenna, enda voru örlagnornirnar Urður, Verðandi og Skuld stundum kallaðar skapanornirnar.
Völuspá pottsins; örlögin hafa þegar ákveðið upphafið og endirinn, en þar á milli liggja orsakir og afleiðingar þar sem þitt er að ákveða. Þar er ekkert einskisvert, allt er munað. Þessi rún getur verið dyr að óuppgötvuðum hugmyndum þar sem þú missir þær sem þú áttir fyrir, líku því þegar við spurningu fæst svar sem býr til fleiri spurningar. Hvað viðkemur hversdagslífinu má búast við einhverju sem kemur á óvart, sem kona gætir þú verið þunguð, eða átt von á jákvæðum breytingum á fjölskylduhögum. Haltu verndarhendi yfir fjölskyldu, börnum eða öðrum sem þarfnast þess, ræktaðu vinatengsl.
Loka annmarkar pottsins; gerðu ráðstafanir til forðast stöðnun, einmanaleika, fíkn og lasleika. Ekki bregðast trausti annarra, varðveittu leyndamál. Menn eiga að njóta lífsins og vera vígdjarfir þar til kallið kemur sem allir verða að hlýða.
Rúnin pottur hljómar bókstafinn P, frumefni vatn, pólun kona, blá-grænn eðalsteinn, rún Friggjar og Urðar.
Þagalt og hugalt
skyldi þjóðans barn
og vígdjarft vera
Glaður og reifur
skyli gumna hver
uns sinn bíður bana
Rúnir | Breytt 30.8.2015 kl. 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2015 | 08:14
Ís
Ís Isa; kyrrstaða, hindrun, stöðnun, vonbrigði. Ís er rún kulda og stöðnunar merki um tíma til að draga sig í hlé. En er jafnframt áskorun í að vinna á sálfræðilegum hindrunum. Ís er frosið vatn og kemur í veg fyrir að það renni, en hann eyðir ekki vatninu, heldur kyrrar og sjálfhverfir það í skýra ískristalla. Því er ís rún skýrleika kyrrstöðunnar og þeirrar sjálfhverfu sem krefst sjálfstjórnar. Ís róar og kælir tilfinningalegt ójafnvægi, en hann mun ekki eyða undirrót óþægilegra aðstæðna. Ís er gagnlegur við að ná jafnvægi í tilveruna, ásamt aðgát og þolinmæði.
Völuspá íss; hindranir og vonbrigði gætu verið á vegi þínum án þess að auðvelt sé að greina hvers vegna. Hugsanlega þarftu að hætta við eitthvað sem þú hefur lengi þráð. Vertu þolinmóður aðgerðarleysi getur verið nauðsynlegur undanfari endurfæðingar. Egóið þarf að víkja um tíma en sjálf þitt vex á ný að styrkleika við andlega þjálfun. En varasama hliðin á þeim styrk er að til verða einstaklingarnir ég og þú, ef egóinu er ekki haldið í skefjum getur það leitt til sjálfupphafningar. Það getur verði freistandi að baða sig í ljóma yfirburða í stað raunverulegs andlegs þroska. Þeir sem allt vita eru jafnframt þeir sem fólk forðast, gefðu því eftir og vertu rólegur.
Loka annmarkar íss; varastu þunglyndi, leiðindi og ráðabrugg. Vertu einnig viðbúinn svikum. Gættu vel að heilsu þinni, eignum og öryggi.
Rúnin ís hljómar bókstafina I - Í, frumefni jörð, pólun kona, steinn hrafntinna, rún Verðandi.
Gáttir allar
áður gangi fram
um skoðast skyli
um skyggnast skyli
því að óvíst er að vita
hvar óvinir
sitja á fleti fyrir
Rúnir | Breytt 1.11.2020 kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2015 | 07:31
Jór
Jór Ehwaz; hreyfing, tækifæri, kjarkur. Jór er rún flutninga, umskipta og hreyfingar, nýrra dvalarstaða, nýrra viðhorfa eða nýs lífs. Jór var tákn Sleipnis hests Óðins, einnig sem þess félaga á ferðalagi er hleypur yfir fjöll og firnindi án þess að þreytast og láta nokkuð stöðva sig. Rúnin getur staðið fyrir ferðalögum í bókstaflegum skilningi en ekki síður ferðalagi hugans og breytinga á umhverfi. Nú á tímum má þess vegna tengja þessa rún bíl, flugvél, bát eða öðrum farartækum. Rétt er þó að hafa í huga að rúnin boðar ferðalag sem felur í sér samstarf byggt á trausti beggja aðila rétt eins og ríkir á milli hests og knapa, hjóna, vina osfv, tveggja helminga af heild.
Völuspá Jós; lífið er síbreytilegt og stefnir ávalt fram á við, vertu hugrakkur, einbeittur og þolgóður. Þú hefur nú náð nógu langt í þroska til að finna til öryggis í stöðu þinni. Nú geturðu snúið þér óhræddur að framtíðinni. Þú hefur þann stuðning sem þú þarft til skjótra framfara í átt að markmiði þínu. En þú verður að gefa sömu tryggð og stuðning og þér eru gefin. Líkt og í samstarfi hests og knapa hefur hesturinn stolt, sem kemur samt ekki í veg fyrir árangursríkt samstarf. Um leið og þú getur verið stoltur af eigin árangri verður þú jafnframt að vera auðmjúkur varðandi aðra þætti samstarfsins, líkt og í hjónabandi, til að tryggja ferð þína til góðs.
Loka annmarkar Jós; Varastu eirðarleysi og fum sem skapast af aðstæðum. Láttu ekki skapsmuni hlaupa með þig í gönur. Hugsunarleysi, flýtir, ójafnvægi og vantraust eru verstu óvinir á lífsins ferðalagi.
Rúnin Jór hljómar sem bókstafurinn E, frumefni jörð, pólun kona, steinn silfurberg, rún Óðins og Sleipnis.
Vits er þörf
þeim er víða ratar
Dælt er heima hvað
Að augabragði verður
sá er ekki kann
og með snotrum situr
Rúnir | Breytt 10.9.2015 kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2015 | 05:37
Fengur
Fengur Fehu; eignir, ágóði, tækifæri. Fengur er rún uppfyllingar, þegar markmiði verður náð, afrek launuð eða ást endurgoldin. Rúnin vísaði áður fyrr til búpeningsins, þ.e.a.s. veraldlegra eigna og er því stundum kölluð fé, en táknar auðæfi í víðum skilningi. Fengur felur í sér næringu hins veraldlega og hins guðlega. Fjöldi þeirra tækifæra sem heimurinn býður verða til fyrir heppni. Fengur veitir getuna til að öðlast heppni og nota hana á töfrandi hátt. Gott er að skilgreina feng sem; mat, vatn, skjól, föt, heilbrygði og kunnáttu, frekar en óþarfa lúxus. Peningar munu vinna best í þeirri orku sem endurspegla feng, því peningar eru aðeins ávísun áþreifanleg verðmæti.
Völuspá Fengs; Þessi rún krefst þess að þú íhugir að auðæfi, sem þú sækist eftir í lífinu, fari saman við sjálfstjórn og viljafestu. Njóttu velgengninnar en mundu að deila með öðrum. Það sem einkennir fengsælan mann er hæfileiki hans til að veita öðrum. Þegar þér bjóðast tækifæri taktu þá skynsamlega áhættu. Heppni er ekki fyrirsjáanleg, en samt raunveruleg orka sem helst í hendur við hamingju þína. Fengur gefur getuna til að öðlast heppni og nota hana á töfrandi hátt. Orka áunninnar heppnin er grundvöllur auðs í lífi þínu. Hugrökk verk eru vitnisburður fengsæls manns.
Loka annmarkar fengs; vertu ekki með eftirsjá vegna glataðra eigna sem þú hafðir ásett þér að halda, haltu í sjálfsvirðinguna. Forðastu vafasamar gjafir og að verða háður einhverju eða einhverjum fjárhagslega.
Rúnin fengur hljómar sem bókstafurinn F, frumefni eldur og jörð, pólun kona, steinn mosa agat, rún Freyju og Freys.
Deyr fé
deyja frændur
deyr sjálfur ið sama
en orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur
Rúnir | Breytt 30.8.2015 kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)