Vertu góður við geimveruna

Lifirðu því eftirsóknarverða jarðlífi sem þú komst til að lifa? Ertu góður við geimveruna í sjálfum þér? þetta eru ekki einfaldar spurningar. En ekkert svar er mikilvægara en það sem þú gefur sjálfum þér, það hefur að gera með kjarna þíns sanna sjálfs, sálina. Og þegar spurningunum er svarað er rétt að hafa í huga að við lifum lífinu af eigin tilfinningu, ekki með annarra rökum. Eins klæðumst við efni, en erum ekki úr efni.

Vertu því góður við geimveruna og hlustaða á raddirnar í höfðinu svo framarlega sem þær eru þínar. Manneskjan hefur hvorteð er alltaf verið barn stjarnanna. Siðmenningin kortlagði meir að segja stjörnuhimininn lögnu áður en hún kortlagði jörðina undir fótum okkar, nú á tímum felum við samt stjörnuhimininn með raflýsingu sem lýsir rétt svo niður á tærnar en gerir okkur blind á umhverfið sjálft, allt undir formerkjum vísindalegra framfara og rökhyggju. Við viðurkennum varla sálina lengur, vegna þess að hún er hvorki raflýst né vísindalega áþreifanleg líkt og efnislegur líkaminn. En vitundin um okkur sjálf kemur frá sálinni og við vitum að hún býr ekki í líkamanum, því innst inni greinum við að líkaminn býr í vitund sálarinnar og er farartæki hennar í þessu jarðlífi.

Forfeður okkar voru meðvitaðir um að þeir bjuggu í alheimi þar sem líkaminn var til fyrir óáþreifanlega innri vídd. Þar sem línan var ekki eins skýr á milli sálar og utanaðkomandi veruleika, vegna þess að báðir veruleikarnir þarfnast hvors annars. Sálin var þá stærri hluti hins mikla veruleika og er það reyndar enn. Nú á tímum erum við samt rænd undra ævintýrum ímyndunaraflsins, sakleysisins sem við upplifðum í gegnum visku hjartans með óskeikulu innsæi barnsins. Allt er þetta meira og minna afvegaleitt af efnishyggju og dýrkun á upplýsingar sem okkur eru innrættar frá blautu barnsbeini.

Gervi þörf eftir efnislegri velmegun hefur slitið á tengsl við náttúruna, jafnframt skynjunina á óupplýstan veruleikan sem er umhverfis. Við getum varla sameinast náttúrunni frekar en andlegum verum ævintýraheimsins. Höfum jafnvel snúið bakinu við guðlegum tengingum lífsins, séðum og óséðum , og með því höfum við jafnframt misst samband við okkar sanna sjálf. Við erum aðeins skugginn af sjálfum okkur og upplifum aðeins lítinn hluta þess veruleika sem okkar stendur til boða.

Heimurinn sem við höfum búið okkur líkist æ meir dvalastað djöfulsins. Milljónum saklausra lífa er slátrað á hverjum degi til þess eins að nýta líkama þeirra á veisluborð allsnægtanna og er nú svo komið að aðeins bestu bitarnir rata á diskinn, hitt fer í ruslatunnuna. Villt dýr eru jafnframt drepin einungis sportsins vegna, til dægrastyttingar. Þar kaupa þeir efna meiri leyfi af stofnunum ríkisins til að drepa hreindýr og hika jafnvel ekki við að hirða aðeins lundir og læri. Ef mikilmennum markaðarins, þar sem tíminn er peningar, er síðan bent á að hafa með sér sóðaskapinn heim er svarið „hélstu að ég væri komin út á land til að bera súpukjöt á milli fjarða“.

Sportveiðimenn sem minna hafa á milli handanna stunda magnveiðar á gæsabringum til að selja í fínu veitingahúsin jafnvel með von um að þannig megi fjármagna hreindýraveiðileyfi, eða ferð til Afríku þar sem hægt er að fá að drepa flóðhest í útrýmingarhættu með sjálfum sér á selfí fyrir upphæð sem sögð er fara til að forða tegundinni úr útrýmingarhættu. Dýr eru pínd og kvalin til dauðs í nafni svokallaðra vísinda, í besta falli fyrir græðandi fegrunar krem fyrir aflóga mannfólkið. Allt er þetta gert af fólki sem býr yfir manngæsku og markaðsmenntun. Til að bæta gráu ofan á svart hefur í gegnum tíðina milljónir saklauss fólks verið handtekið, ofsótt og myrt til að ásælast náttúruauðlindir jarðar í nafni tækni og framfara.

Fréttir eru farnar að berast af börnum allt niður í fimm ára aldur, sem eru gefin hugarfarsbreytandi þunglyndislyf eftir vísindalegar greiningar. Foreldrarnir jafnvel orðnir það vel skólaðir að þau seigja frá þeirri „blessun að barnið mitt fékk greiningu því nú veit ég loksins hvað gekk að því“. Þó það sé búið að lyfjavæða sjúkdómsgreiningar vísindanna í bak og fyrir, þá breytir það ekki því að nú er jafnvel rítalín kynslóðin farin að hverfa úr þessum heimi vegna hjartastopps á besta aldri. Þrátt fyrir allar framfarir vísindanna þá er mannskepnan fyrir löngu orðin óheilbrigðasta dýrategund jarðar.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið sótt óumbeðið til saka af lögfróðu fólki vegna ótímabærra dauðsfalla á sjúkrahúsum, því einhver verður að bera ábyrgð þó ekki væri nema hagvaxtarins vegna. Og hvað þegar þeir lögfróðu fá sínu framgengt, breytist þá ekki hlutverk sjúkrahúsa til samræmis við það að flestir enda ævina þar? Er þetta gert í nafni manngæsku og réttlætis, efastu kannski ennþá um að jarðlífið sé umsetið djöfullegum öflum?

Hinn djúpa viska veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sérstaka reynslu í þessum heimi. Þessu fær ekkert breytt, þó svo að allt sé gert til að innræta okkur öllum sama markaðs veruleikann frá vöggu til grafar. Ástæða þess að galdur geimverunnar er ekki upplýstur á okkar tímum er sú að hann brýtur í bága við áþreifanleika markaðsafla sem bera fyrir sig nútíma vísindum á sama hátt og trúarbrögðum fyrri alda. En galdur andans mun vera til staðar löngu eftir að markaðurinn og nútíma vísindi hafa tortímt sjálfum sér. Annað getur aldrei orðið, því að galdur andans er tjáning hinna eilífu umbreytinga. Trúin og skáldskapurinn verður alltaf mikilvægari en staðreyndir vísindanna.

Sem manneskjur skynjum við heiminn með hjartanu á mismunandi hátt vegna okkar mismunandi tilgangs. Til dæmis þá eru álfar og geimverur gerðar úr tungumáli en ekki vísindalegu sannreynanlegu efni, rétt eins og mankynssagan. Við trúum mankynssögunni í röðum af lögnu dauðum blöðum, þó svo að hún sé gerð úr sama tungumáli og álfasögur. Við ferðumst um rúm og tíma með hugsun og máli en ef ferðalagið er ekki samkvæmt innrættu normi neyslunnar er stutt í greiningar og pillur. Okkur er tamið að trúa ekki að geimverur séu til, hvað þá álfar, okkur er jafnframt innrætt að treysta ekki á eigin dómgreind varðandi púkana í okkar eigin lífi. Ef þú hugsar og skilgreinir aðstæður það rökfræðilega að þú hættir að trúa innsæi þínu, þá er greindin farin að vinna gegn þér, því getur verið varasamt að hugsa og skilgreina of mikið þannig hættirðu að nota innsæið við að skilja sjálfan þig.

Erfiðustu flækjur hverrar manneskju snúast um skynsemi rökhugsunarinnar, á meðan viska hjartans segir einfaldlega svona er þetta. Hugsuðurinn veit hvernig allt á að vera þó svo að ekkert hjá honum gangi þegar hann ætlar að framkvæma. Gerandinn framkvæmir og fær allt til að ganga upp með síendurtekinni æfingu þó svo að hann hafi ekki hugsað út í hvers vegna. Rökstudd innræting lífsins færir okkur svo oftast þetta tvennt umsnúið í einum pakka, á þann hátt að ekkert virðist virka og við höfum ekki hugmynd um hvers vegna. Hættu að hlusta á þá sem reyna að segja þér að þú gangir með ranghugmyndir og þeir viti betur hvað þér er fyrir bestu, það er ekki svo, ranghugmyndir eru ekki til ef þær koma frá hjartanu og mundu að rökhugsunin verður aðeins þarfur þjónn ef hún þjónar hjartanu.

Þó þér finnist það vera geggjun að fara á móti hámenntaðri rökfræði nútímans þá má hafa í huga að það er engin mælikvarði á heilbrygði neins að vera viðurkenndur í sjúkum heimi. Jafnvel þó röddin í höfðinu hvísli með akademíuni "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur engin til með bjarga þér frá þínu eigin lífi. Flestir vakana upp frá innrættum álögum lífsins skömmu áður en ævinni lýkur, hafðu það í huga, og að síðasta dansinn í þessu jarðlífi stígur þú einn.


Svartnætti sálarinnar

Á einhverjum tímapunkti í lífinu, gætir þú upplifa svartnætti sálarinnar, þar sem allt virðist hafa farið úrskeiðis sem hugsanlega gat farið úrskeiðis. Það sem margir átta sig ekki strax á, er að þetta er blessun.

Þegar yfir hellist "svartnætti sálarinnar" virðist líf þitt hitta botninn. Þú getur fundið skipsbrot lífsins nánast allsstaðar; fjárhagslega, andlega og líkamlega.

Það sem venjulega gerist hjá þeim sem upplifa "svartnætti sálarinnar" er að við þá bitru reynslu kviknar hugsunin; "hvers vegna kom þetta yfir mig?"

Þegar greiningin hefst getur þú fundið til haturs gagnvart þeim sem lögðu til "svartnætti sálarinnar". Þú gætir efast um skaparann, fundist leiðsögnin bregðast og verndarenglarnir yfirgefa þig. Þetta gæti samt ekki verið fjær sannleikanum.

Þú munt uppgötva að allt það svartnætti sem þú fórst í gegnum gagnast þér til andlegs þroska. Að endingu verður þú undirgefinn í lotningu fyrir öllu því sem heimurinn færir þér án truflunar frá "egóinu" og munt sjá að allt þitt er "í höndum skaparans".

þú ert ríkur þegar þú átt eitthvað sem þú getur ekki keypt fyrir peninga. Það er þar sem vakningin hefst.

"Það er ekki hægt að komast til meðvitundar án sársauka. Fólk gerir allt, sama hversu fáránlegt það er, til að forðast eigin sál. Fólk verður ekki upplýst í birtunni, heldur með því að lýsa upp myrkrið." -Carl Jung.


Er til sál, og hvar hefur hún þá haldið hún sig?

Það má ætla að að fram til þessa hafi almennt verið litið svo á að manneskjan samanstandi af huga, líkama og sál. En það er misjafnt eftir menningarheimum, trúarbrögðum og tíðaranda hvar sálin heldur sig, eða réttara sagt hvar í sjálfsmynd mannsins hún er staðsett eða þá hvort hún fyrirfinnst þar yfir höfuð.

En ef sjálfsmyndin hefur sál þá má ætla að líkaminn sé bústaður hugans, jafnframt því að vera farartæki sálarinnar í efnisheiminum. Hugurinn hafi að geima persónuleikann sem við staðsetjum okkur með gagnvart öðrum, stundum kallað egó. Sálin sé svo hin æðri vitund sem tengist alheimsorkunni, nokkurskonar stýrikerfi huga og líkama í gegnum lífið. 

Það fer samt lítið fyrir sálinni í tæknivæddri upplýsingaveröld nútímans. Hafa nútíma vísindi jafnvel efast um að til sé eitthvað sem lifi dauðann líkt og sál. Fornar hugmyndir fólks s.s. þess sem nam Ísland fyrir meira en 1000 árum gerði ráð fyrir öðruvísi sjálfsmyndin. Hún samanstóð að mestu af ham, hamingju, huga og fylgju. Þessir þættir sköpuðu manneskjunni örlög. Þetta kann að virðast torskilið í nútímanum en ef heiðin minni og þjóðsögur eru skoðaðar þá var margt í umhverfinu sem hafði áhrif.

Náttúran var t.d. mun stærri hluti af vitundinni en hún er í dag. Þar gátu búið duttlungafullar vættir í steinum, hólum og hæðum, allt um kring, oftast ósýnilegar. Eins las fólk í atferli fugla og dýra. Haldnar voru hátíðir um vetrarsólstöður og önnur árstíðaskipti til að hylla heilladísir og blóta goðin. Fólk taldi sig jafnvel getað séð óorðna atburði með því að sitja á krossgötum á réttu augnabliki.

Ef reynt er að setja sjálfsmynd fornmanna í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina ham sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveldúlfur hafi verið. Á kvöldin varð hann svefnstyggur og afundinn, þaðan var viðurnefnið komið. Eins var talað um hamskipti, þjóðsögurnar skýra þessi fyrirbæri ágætlega og hver hin forna meining er á íslenskri tungu.

Við tölum t.d. enn um hamhleypur til verka, þegar menn herða upp hugann líkamanum til hjálpar. Það má kannski segja sem svo að hugurinn sé á margan hátt með sömu merkingu í dag og til forna. Þó mun hann sennilegast hafa verið meira notaður til hjálpar líkamanum áður fyrr. En í dag þegar hann hneigist meira til þeirrar sjálfhverfu sem einkennir nútímann, enda líf fólks áður meira bundið líkamlegu striti.

Hamingjan var ekki öllum gefin frekar en skýra gull og fólk gat lítið aðhafst til að ávinna sér hana. Miklu af lífsins gæðum hafði þegar verið úthlutað við fæðingu. Þar voru það örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld sem sáu um að útbúa forlög mannanna. En nú á tímum líta menn meira til hamingjunnar sem huglægs ástands.

Eitt var þó til forna, sem mátti hafa áhrif á til heilla, en það var sjálf fæðingafylgjan. Hana bar að fara vel með því í henni bjó sú heill barnsins sem kæmi til með að fylgja því í gegnum lífið. Ef fæðingafylgjunni var t.d. fleygt á viðavangi var heill barnsins óvarin og tók þá fylgja barnsins mynd þess sem fyrst kom, er talið að þessa hafi mátt sjá merkis í nöfnum manna s.s. Kveld-Úlfur, Hrafna-Flóki osfv.. 

Auðveldasta leiðin til að átta sig á hvar í mismunandi sjálfsmynd sálin er fólgin, er að kanna viðhorf til dauðans. Nútímamanninum getur virst erfitt að skilja hvernig litið var á dauðann í fornri heiðni. Hetjudauðinn var þar ávinningur samanber eilíf veisluhöld vígamanna í Valhöll að kvöldi hvers dags, gagnvart því að þurfa að þola þrautir og liggja köld kör Heljar.

Þessar tvær birtingarmyndir dauðans voru litaðar sterkum litum til að auðvelda gönguna um lífsveginn æðrulaust og án ótta við dauðann. Æðsta markmið var að mæta örlögum sínum óttalaus. Taka dauðanum með óbilandi rósemd, og þola kvalir hans af karlmennsku.

Nú á dögum er algengara að fólk taki pillur til að sefa óttan. Leggist jafnvel meðvitað í kör á meðan vottur af lífsneista er til staðar, þó það viti að það verði svo ósjálfbjarga að það komi til með að vera tengt slöngum og dælt ofaní það með vél. Nútíminn gerir ekki mikið með eilífð óttalausrar sálar.

Hvar sálina var að finna í heiðni er greinanlegt af viðhorfi fólks til forlagana og dauðans. Sálin bjó með manneskjunni og var henni meðvituð dags daglega. Það sem meira var að til forna voru dauðir heygðir og helstu verkfærum sem kæmu að gangi í framhaldslífinu var með komið s.s. vopnum til Valahallarvistar. Í vissan tíma var litið svo á að haugbúinn væri á milli heima, ennþá að hluta í þessum sem draugur.

Nú á tímum hefur sálin verið einangruð frá efnisheiminum, þar sem hugur og líkami dvelja í síauknum hraða tækninnar. Dauðinn er að verða myrkvaður endir alls og flestir karlægir áður en til hans kemur. Hvað er til ráða? ,,, kyrra hugann?


Draumar - skilaboð sálarinnar

Draumar eru vegvísar á leið til sjálfsþekkingar. Við eyðum þriðjungi lífsins í svefn, hugsanlega allt að 30 árum. Það er mikill tími, hugsaðu þér bara hvað mikið mætti læra á 30 árum í vöku. En í reynd eru draumar svona mikils virði fyrir sálarheill einstaklingsins. Carl Jung, einn virtasti sálfræðingur 20. aldarinnar, þróaði aðferð svo skjólstæðingar hans gætu nýtt sér drauma sína sem mikilvirka leið til sjálfseflingar.

Draumurinn er hinn duldi aðgangur að leyndardómum sálarinnar, sem opnar leiðina út í stjörnubjartan alheiminn, sem var bústaður sálarinnar lögnu áður en sjálfsvitundin varð til, og alheimurinn mun áfram verða sálarinnar sama hvað sjálfsvitundin nær langt. –Carl Jung

Í verkum sínum skrifaði Jung m.a. um máttinn sem felst í því að geta skilið táknin sem birtast í draumi svo einstaklingurinn megi fá skýrari sýn á vegferð sína. Samkvæmt Jung, eru draumar nokkurskonar sýnikennsla sem stígur upp úr undirmeðvitundinni til þess ætluð að hjálpa honum að greina möguleikana sem honum standa opnir.

Draumar eru óháðir þeir lúta ekki rökum eru því hvorki háðir vilja né ásetningi, eru nánast eins og hreint náttúruafl. Þeir sýna okkur órökstuddan sannleika og innihalda því boðskap sem ekkert annað getur innihaldið, en gefa okkur samt sem áður sýn á það sem samræmist eðli okkar, þegar vitund okkar hefur blindast. – Carl Jung

Það sem er svo heillandi við drauma er að táknmyndir þeirra hafa sömu merkingu fyrir fjöldann. Við erum öll hluti af sömu samvisku, einhverskonar lifandi gagnabanka, sem stöðugt bætist í. Þess vegna finnur táknafræði draumanna svörun hjá svo mörgum með svipuðum táknum.

Tákn eru uppskrift að sálarró í hinu óþekkta. – Carl Jung

En öll erum við einstök því verður draumurinn aðeins túlkaður af þér, kannski með smá aðstoð frá öðrum. Að lesa drauma eru forn fræði, sem tilheyrðu oft spákonunni eða miðlinum, þeim sem gátu vísað leiðina í gegnum leyndardóminn, svo hægt væri að eiga samskipti við hina miklu visku undirvitundarinnar.

Draumar geta t.d. sýnt hluta þeirra möguleika sem ekki var tekið eftir í vöku. Líkt og hver maður hefur sína upplifun á hverjum atburði og tekur þar af leiðandi eftir mismunandi atvikum. Í draumnum getur því það birts sem fór framhjá einstaklingnum í vöku vegna þess að eitthvað annað sem þótti mikilsverðara yfirtók athyglina.

Það er ekki bara að draumurinn fari ekki að vilja okkar, heldur er hann oft í mótsögn við meðvituð áform. Hlutverk slíkra drauma getur því verið að bera saman vissar ólíkar staðreyndir eða möguleika, og koma þannig á einhverskonar leiðréttingu eða endurbót í vöku.

Draumar eru því mjög þýðingarmiklir, þar sem þeir birta undirvitundina betur en nokkuð annað. Þeir eru nokkurskonar gat, sem hægt er að kíkja í gegnum inn í undirvitundina. Þeir geta bæði verið sundurlaust rugl frá hinum persónulega hluta undirvitundarinnar eða þrungnir merkingu fyrir dreymandann.

Draumar geta því allt eins verið sendingar frá vitundinni. Jafnvel  raunveruleg vitneskja, sem meðvitundin, hið persónubundna „ég“ tók ekki eftir, en kemur fram í svefni vegna þess að í vöku var því ekki veitt eftirtekt.

Þetta persónubundna "ég" hverfur til draumsins að nóttu, líkt og það gerir fyrir fullt og allt við lok æviskeiðsins. Draumurinn er því að áliti Jungs nokkurskonar miðill á milli dulvitundar og meðvitundar, milli sálarinnar og hins einangraða einstaklings.


Tilvera sálarinnar í veröld rökhugsunar

Tómleg iðja: Félagslegi veruleikinn er tálsýn. Um er að ræða rökfræðilegt verkefni sem ætlað er að halda okkur uppteknum, dreifa athyglinni og halda aftur af sköpunargáfu, og um leið leggja grundvöllinn að þeim veruleika sem við lifum. Hvert og eitt okkar fæðist einstakt og skapandi, á sinn tilfinningalega og vitsmunalega hátt. Samfélagslegi veruleikinn heftir skapandi kraft ímyndunaraflsins og takmarkar getu einstaklingsins til að lifa í þeim tilgangi sem hann kom í þennan heim til að njóta. Margir gera sér ekki einu sinni grein fyrir því hver tilgangur lífsins er, þau eru svo fá tækifærin í nútímasamfélagi til að láta ljós sálarinnar skína, hvað þá til að leifa henni að dafna.

Út af sporinu: Það er mýgrútur þátta í okkar félagslega umhverfi sem er sérstaklega til þess hannaður að halda okkur óttaslegnum og uppteknum við allt annað en okkar langanir. Því betur sem tekst að halda okkur ánægðum með afþreyingu, því afvegaleiddari verðum við frá því að skapa okkar umhverfi. Meir að segja áður en við höfum áttað okkur á því hvernig við upplifum okkur sjálf hefur umhverfið verið fyllt af alskins rökfræðilegu áreiti sem vekur viðbrögð á við reiði, afneitun, afskiptaleysi og tómlæti. Þessir þættir daglegrar reynslu hindra okkur í að tengjast alheiminum. Að endingu sitjum við allt eins uppi með hugsun og líkama, án hjartagæsku og sálar.

Frumhvötin: Félagslegri stöðu okkar er þröngt skorinn stakkur sem markar reynslu okkar og upplifun. Það að komast af hefur orðið að verkefni daglegs lífs. Við erum skilyrt af ógreinanlegum öflum til að láta af okkar eðlilegu, vitsmunalega- og tilfinningalegum viðbrögðum, í skiptum fyrir samkeppni, örvæntingu og eigingirni, sem blindar sýn okkar sanna tilgangs. Þetta dregur úr mætti þess upplýsta huga sem má finna í hjartanu og að endingu lokar það fyrir traustið á innsæi sálarinnar. Við drepum hluta af sjálfum okkur daglega með því að tortryggja getu okkar, með ótta og óvissu um að geta ekki uppfyllt langanir okkar,lifað og dafnað á eigin forsemdum í samfélagi við aðra.

Móðan á speglinum: Hugur okkar er eins og villugjörn þoka þar sem við eigrum um í hringi og villumst. Hugsanir okkar vekja oft upp kvíða, efa og skeytingaleysi. Óuppfylltar væntingar og loforð einkenna tilveruna. Við leyfum hugsunum okkar að menga hugann með fordómum, tvískynungi og tortryggni í stað þess að upplifa okkur í orku og öryggi. Viðhorfið til veruleika okkar sjálfra og annarra er oft fullt af ranghugmyndum. Hliðin sem við snúum að heiminum skilyrðist fyrst og fremst af rökfastri stofnana uppfræðslu og trúarbrögðum, á kostnað sköpunargáfunnar.

Í ólgusjó: Við náum ekki einu sinni að halda okkur í yfirborði tifinningalegrar vitundar og tjáningar. Sjálfhverfan hefur tekið stjórnina í tilveru okkar, því við verðum að vera virkir þátttakendur í félagslegum veruleika. Þegar við upplifum tilfinningar, er það oft öldurót með djúpum dölum og toppum. Tilfinningarnar brotna svo eins og brim við grýtta strönd í formi reiði, missis og sorgar. Þráhyggja okkar og ásókn í félagslegan samanburð bindur okkur við neikvæðar tilfinningar sem takmarka okkur vegna endalausra efasemda um stöðu og getu. Farvegur hugsana okkar kaffærir ítrekað möguleikana sem við vitum af í hjartanu.

Neisti hjartans: Hjartað geymir lykilinn að því að opnar okkur leið í gegnum þokuna til fjölvíddarinnar. Þar er segulorkan, sem virkjar ímyndunaraflið, orka þess er kjarni tilverunnar. Það sameinar líkama okkar og huga við innsæi sálarinnar. Hjartað hefur samskiptin við alheiminn, neisti þess er miðpunktur okkar persónulegu uppsprettu. Það er miðdepill sköpunargáfunnar og miðillinn sem tjáir anda okkar í þessum heimi. Hjartað slær fyrir tilstilli eilífs neista alheimsins sem hreinsar hugsanir okkar og umbreytir tilfinningalegri reynslu. Og þegar við gerum eitthvað með hjartanu verður það einstakt.

Hringiða viskunnar: Innsæið er hinn helgi spírall sem fyllir arfleið okkar ódauðlegri tilveru. Þegar við sameinumst innsæi okkar í hlutfallslegu jafnvægi eðlishvata, vitsmuna og tilfinninga, frelsum við okkur úr álögum félagslegs samanburðar. Ímyndunaraflið kemur í stað sjálfsins þegar við komumst yfir í þá vídd. Við umbreytumst í tjáningu alheimsins. Orka vitundar okkar tengir okkur við andann. Innsæi er brúin sem tengir sköpunargáfu okkar við veruleikann. Þar finnum við tilgang umbreytingarinnar, uppruna sálar okkar og mótum okkar framtíðarsýn og möguleika samkvæmt því.

Hjartans bruni: Besta lýsingin á því hvað fjölvídd merkir er að finna í sálinni. Hlutverk samstillingar líkama okkar, huga, hjarta og innsæis á sér síendurteknar birtingarmyndir í daglegu lífi. En þegar við eru altekin af eðlishvötum okkar og rökfestu, rofnar sambandið við hjarta okkar og anda og við ánetjumst hvað eftir annað í skólaðrar tilveru. Þegar við látum ljós sálar okkar skína, leifum við forlögunum að skapa hið óútreiknanlega. Það gefur okkur möguleikann á að vera andlegar verur sem búa yfir mannlegri reynslu, og þá hvernig - og hvers vegna við veljum að umbreyta okkar félagslega veruleika. Sálin tengir okkur við alheiminn og möguleikann á að uppfylla markmið okkar.

Breytt markmið: Reynsla okkar endurspeglar það sem við veljum, er tjáning tilveru okkar og skuldbindur um leið ferð okkar að sannleikanum. Það sem við ætlum með lífi okkar helgar tilganginn. Við fullnýtum möguleikana þegar við sleppum öllu sem ekki lengur þjónar tilgangi okkar eða samfélagi. Það er í þesskonar tiltekt sem möguleikar okkar fæðast. Á hverjum degi eigum við möguleikann á að nýta krafta okkar í að verða farvegur alheimsins. Þetta gerir okkur mögulegt að viðhalda þeirri gullgerðalist sem býr í anda okkar, hjarta, huga og líkama. Við upplifum tilgang okkar þegar við tengjumst uppsprettu alls þess sem er og mun alltaf verða.

Í algleymi: Þegar við þóknumst félagslegum veruleika verðum við að öllu því sem við erum ekki. Við sækjumst eftir ávinningi með samanburði við aðra, vegna þess að við trúum ekki á okkur sjálf. Tilvera okkar er eftir sem áður hinn óendanlegi möguleiki eilífrar orku, sem fer fram úr okkar björtustu vonum og ímyndunarafli. Við erum og munum alltaf verða farvegur alheimsins í okkar eigin tilveru. Innan hvers og eins okkar er lykillinn að leyndardómnum. Við eigum möguleika á að byggja líf okkar á eigin reynslu. Svo þegar við uppskerum höfum við búið til eitthvað einstakt, sem endurspeglar tilgang okkar, sameinar alheiminn við fyrirætlanir okkar og sálin verður að grundvelli tilverunnar.

Endursögn á Source Of The Soul / eftir Iam Saums, sem er tónlistamaður, ljóðskáld og smásagnahöfundur.


Rúnir

Urður Verðandi Skuld

Rúnir hafa verið til frá aldaöðli og þær eru oft tengdar við örlaganornirnar Urði, Verðandi og Skuld. En auk þess eru rúnir gamalt bókmál og uppspretta galdrastafa þar sem fleiri en ein rún voru samansettar. Orðið rún er upphaflega talið merkja leyndarmál og sá sem kunni að rýna í rúnir vissi því meira en aðrir.

Rúnir tengjast norrænni goðafræði, leyndardómur þeirra birtist Óðni þegar hann hékk níu nætur á Aski Yggdrasil (lífsins tré), án matar og drykkjar, stunginn síðusári. Rúnir eru taldar hafa forspárgildi og er vísað til þess þegar rýnt er í rúnirnar á þessari síðu. Sjá meira um sögu rúnanna,,, 

 

FengurFengur; eignir, ágóði sjá meiraÚruzUxi; þrek, þolinmæði sjá meiraÞursÞurs; ógn, uppgjör sjá meiraÁsÁs; ábending, innsæi sjá meiraReiðReið; vegvísir, ferðalag sjá meiraKanoKaun; þjáning, leiðarljós sjá meiraGjöfGjöf; virðing, kærleikur sjá meiraVernd IIVernd; þægindi, umbun sjá meira

HaglHagl; upplausn, eyðing sjá meiraNauð IINauð; þvingun, þörf sjá meiraIsÍs; kyrrstaða, vonbrigði sjá meiraJörð IIJörð; tímamót, uppskera sjá meiraEir IIEir; sveigjanleiki, styrkur sjá meiraPotturIIPottur; leyndardómur, örlög sjá meiraElgurElgur; hugrekki, fordæmi sjá meiraSunna IISunna; lífsorka, árangur sjá meiraTýrTýr; leiðtogi, skipulag sjá meiraBjörk IIBjörk; hæfileikar, þroski sjá meiraUntitledJór; tækifæri, kjarkur sjá meiraMennska IIMennska; sjálfsmynd, kunnátta sjá meiraLögur IILögur; þolinmæði, útsjónarsemi sjá meiraYngvi IIYngvi; karlmennska, traust sjá meiraDögunDögun; viðsnúningur, vitundarvakning sjá meiraÓðalÓðal; uppruni, æskustöðvar sjá meira


Saga rúnanna

rúnasteinar

Enginn veit nákvæmlega hversu gamlar rúnir eru, orðið rún er talið vera norrænt og merkja leyndarmál eða ráðgáta.

Rúnir eru sagðar um 2000 ára gamalt letur sem rakið er til germanskra þjóða í Austur- og Mið-Evrópu. Síðar eiga þær að hafa breiðst út til Norður-Evrópu,loks til Norðurlanda, Bretlandseyja og Íslands. Þær eru af viðurkenndum fræðimönnum taldar hafa þróast út frá grískum, etrúskum og rómönsku latínu letri og jafnvel fleiri leturgerðum. Margir hafa þó orðið til þess að benda á að rúnir gætu átt sér mun eldri og víðtækari uppruna. Bent hefur verið á að furþark rúnastafrófið sem einkum er eignað germönskum þjóðum sé sláandi líkt rúnastafrófi sem þjóðflokkur Göktürk notaðist við í Mið-Asíu. Þá eru rúnirnar komnar í þá slóð sem Snorri Sturluson rekur þegar hann greinir frá goðafræðinni og því hvernig æsir fluttust til norðurlanda frá Svartahafsströndum.

Rúnir tengjast norrænni goðafræði sterkum böndum, leyndardómur þeirra birtist Óðni þegar hann hékk níu nætur stunginn síðusári á Aski Yggdrasils, án matar og drykkjar. Í 138. erindi Hávamála segir svo um sjálfsfórn Óðins: „Veit ég, að ég hékk vindga meiði á nætur allar níu, geiri undaður og gefinn Óðni, sjálfur sjálfum mér, - á þeim meiði er manngi veit hvers hann af rótum renn“. Hann kenndi síðan Freyju merkingu rúnanna sem í staðinn kenndi honum seið. Heimdallur færði þær síðan íbúum Miðgarðs.

Óðinn er m.a. guð visku og skáldskapar í norrænni goðafræði, galdra og spádóma og því tengjast rúnirnar þessum þáttum sterkum böndum. Rúnir eru oft tengdar forlaganornunum Urður, Verðandi og Skuld sem spunna mönnunum örlög þar sem þeir höfðu mismikla gæfu til að bera.

IMG_1221

Tacitus segir svo frá í Germaníu 98 e. Kr.: „Þeir sníða grein af aldintré og hluta í smábúta, er þeir aðgreina með mismunandi merkjum; strá svo bútunum án greinarmunar og af handahófi á hvítt klæði. Að því búnu kemur prestur þjóðflokksins, ef spáfréttin er fyrir alþjóðar hönd en annars heimilisfaðirinn, lítur hann upp til himins og ákallar guðina, en tekur því næst hvern bút þrisvar upp. Þýðir hann svo hlutkestið af merkjum þeim er á bútana voru sett“. Þó fræðimenn leggi mikið upp úr Gemaníu texta Tactusar bendir margt til að rúnir séu komnar mun lengra að, jafnvel frá horfnum heimi sem þá og nú er óþekktur. Í norrænni goðafræði er það Heimdallur sem sagður er hafa kennt mönnum vísdóm rúnanna, en Heimdallur var sonur Ása fæddur af níu dætrum sjávarguðsins Ægis í Jötunheimi.

Rúnakerfin, sem oftast er getið eru tvö og kölluð FURÞARK eftir hljóðan fyrstu rúnanna í kerfinu. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og er sagt í notkunn frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt kerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðallega fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi. Rúnakerfin skiptast í þrjár ættir; Freys-ætt, Heimdalls-ætt og Týs-ætt. Á víkingaöld var 16 rúna kerfið notað og fluttist það til Íslands en hafði auk þess verið notað á Norðurlöndum og Bretlandseyjum og hefur fundiat á Grænlandi og jafnvel Ameríku. Víkingarnir töldu rúnirnar vera máttugar og sögðu að þær hefðu bæði galdramátt og lækningamátt. Sumar rúnir báru töfranöfn sem nú eru orðin að kvenmannsnöfnum svo sem hugrún sem var notuð til að efla vit og sigrún sem var notuð til að vinna sigur í orrustu. Rúnir voru oft samsettar úr fleiri en einni rún til að auka mátt þeirra og nefndust þá galdrastafir.

_gishjalmur-3

Almennir textar í rúnaletri voru yfirleitt ekki mjög langir, rúnaletrið var einfalt og sumar þeirra merkja meira en eitt hljóð og geta því táknað marga bókstafi. Íslendingasögurnar hafa að geyma fróðleik um rúnir sem vitnað er í um víða veröld. Egilsaga greinir frá því þegar Egill Skalla-Grímsson ristir rúnir í drykkjarhorn til að eyðileggja eitur sem honum er byrlað í öli og kvað þá vísu sem hefst á þessum orðum „Ristum rún á horni, rjóðum spjöll í dreyra“ Þegar hann hefur farið með kvæðið til enda springur hornið og gumsið fer til spillis og bjargar þar með Agli frá þessum vélabrögðum. Eins segir sagan frá því þegar bóndadóttir ein lá fársjúk eftir að henni höfðu verið ristar meinrúnir. Með rúnakunnáttu sinni læknaði Egill stúlkuna þegar hann afmáir meinrúnirnar og ristir nýjar rúnir á rúmstokk hennar og lét þá þessi varnarorð fylgja; „Skalat maður rúnir rista, nema ráða vel kunni“. Egill Skallagrímsson, er einn þekktasti víkingur allra tíma, illvígur og óvæginn en samtímist eitt mesta skáld þess tíma auk þess að hafa þekkingu á mætti rúnanna sem veitti honum margvíslega yfirburði.

Íslenskar rúnaristur hafa aðallega fundist grafnar á legsteina frá 1300-1700, eftir að þeir fóru að tíðkast. Þó má telja líklegt að frumrit íslendingasagnanna hafi verið skráð með rúnum í skrám sem Snorri Sturluson ofl. varðveittu hundruðum ára síðar með því að láta skrifa þær upp með latnesku letri. Þó svo rúnir séu taldar hafa verið hvað lengst í almennri notkun á Íslandi er fátt sem finnst því til staðfestu annað en legsteinar. Ástæðan gæti hugsanlega verið sú að kirkjan taldi þær til galdraiðkana. Skipunarbréf erkibiskupsins í Niðarósi 1334, 1342 og 1346 (en biskuparnir á Íslandi heyrðu undir Niðarós á þeim tíma) fyrirbauð mönnum að fara með lyf, galdra og hindurvitni að viðlögðu guðs banni. Kirkjan virðist þó ekki hafa barist af alefli gegn rúnum fyrr en eftir siðaskiptin. Telja má að Kýraugastaðasamþykkt Odds biskups Einarssonar árið 1592 hafi markað tímamót, en þar eru galdrar, rúnir og særingar lögð að jöfnu.

galdrabrenna II

Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625 með aftöku Jóns Rögnvaldssonar, en fáein rúnablöð urðu honum að falli. Þetta gerist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu hófust og voru þær þá þar í rénun. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir rúnafróða menn því að þekking þeirra var lögð að jöfnu við galdra, djöfuldóm og trúvillu sem náði hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi. Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir rúnagaldur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur árið 1625 í Svarfaðardal við Eyjafjörð. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, en slíkt bauð heim galdragrun og djöfullegum dauða í eldi. Það sérstaka við íslensku galdrabrennurnar er að þar voru karlmenn aðallega bálinu að bráð.

Á síðustu öld spann Þýskaland nasismans sinn örlagavef með myrkum öflum, þar sem rúnir komu við sögu. Hinn kynngimagnaði hakakross var merki nasistaflokksins og þriðja ríkis Hitlers. Hakakrossinn er víða til í táknfræði og er þar kenndur við sólarhjólið. Það voru krosslagðar sólrúnir sem mynduðu hinn illræmda hakakross og tvær þeirra hlið við hlið voru notaðar sem tákn ss sveitanna. En sól-rúnin stendur m.a.fyrir þrumufleyginn, sem var ginnhelgasta tákn Þórsdýrkenda. Gunnfánar, skyldir og jafnvel skriðdrekar voru merktir fornum rúnum. Ástæðan fyrir því að nasistar völdu þessi tákn var ekki einvörðungu vegna trúar þeirra á að þær væru germanskar að uppruna, heldur ekki síður vegna þess að hugmyndfræðingar þeirra trúðu á töframátt rúnanna. Sennilega hefur nasismanum tekist að koma meira óorði á rúnirnar og vísdóm þeirra en galdrabrennur fyrri alda.

ss

Nú á tímum eru rúnir einkum notaðar til gamans s.s.til tattooskreytinga og spádóma. Líkt og í bollalestri og tarrotspilum þá eru þær taldar hafa forspárgildi um örlög fólks. Í eðli sínu fela spádómar í sér ákveðna forlagagatrú en það á þó ekki alltaf við um rúnaspádóma. Vísdómur rúnanna getur fengið fólk til að hugleiða sitt eðli og umhverfi. Rúnirnar gefa sjaldan skýr svör um framtíðina en leiðbeina hvernig hægt er að hafa áhrif á hana. Flestir vita að þeir sjálfir hafa mest áhrif á það hvernig eigið líf þróast. Það má samt segja að skapanornirnar spinna örlagavefinn sé þeim látin tiltrúin í té og þar sé hver sinnar gæfu smiður. 

Tattoo


Dögun

Dögun

Dögun – Dagaz; ) viðsnúningur, vitundarvakning, skýrleiki dagsbirtunnar öfugt við óvissu næturinnar. Fornar menjar benda til þess að rúnin dögun hafi verið tákn fyrir ljós nýs dags í yfir fjögur þúsund ár. Dögunin vekur upp fjölda hugsjóna og vona. Þessi vakning leiðir til þess að ekki þarf lengur eitt rétt svar, fleiri en einn sannleikur getur verið boði. Engin ein trú eða sjónarmið verður nægileg, viðtekin fyrri viðhorf og sjónarmið verða smám saman yfirgefin í kyrrð hugans þar sem sannleikurinn endurómar. Rétt er að hafa í huga að rúnastafrófið hefur ekkert tákn fyrir nóttina, því verður að líta svo á að myrkrið sé hluti ljóssins. Þar sem sólin er alltaf til staðar endurkastar tunglið og stjörnurnar stundum birtunni.

Völuspá dögunarinnar; nóttin er liðin, það birtir á ný, vitundarvakning síendurtekinnar dögunar mun að lokum leiða til þeirra hugmyndafræðilegu breytinga að þú áttar þig smá saman á að jafnvel tíminn er blekking, notaður til að stjórna. Fyrir suma er þessi breyting svo stórkostleg að þeir snúa gjörsamlega við blaðinu og lifa venjulegu hversdagslífi á óvenjulegan hátt. Þú stendur á tímamótum, frammi fyrir mörgum tækifærum. Skipuleggðu verkefnin, gerðu það sem þú þarft með glöðu geði og láttu mátt eigin vilja stjórna breytingum. Dögunin fyllir þig bjartsýni til að takast á við verkefni dagsins.

Loka annmarkar dögunar; varaðu þig á að einblína á framtíðina eða haga þér kæruleysislega, þú átt heilmikla vinnu fyrir höndum. Bægðu frá þér vonleysi og svartsýni, tímamót eru ekki endalok.

Dögun hljómar bókstafinn D - Ð, frumefni eldur og loft, pólun karl, steinn grænn tópas, rún Heimdalls.

 

Munu ósánir

akrar vaxa

böls mun alls batna

Baldur mun koma

Búa þeir Höður og Baldur

Hrofts sigtóftir

vel valtívar

Vituð ér enn eða hvað


Ás

Ás

Ás – Ansuz; ábending, boðberi, innsæi, málsnilld, samskiptahæfni. Rúnin ás hefur vafist fyrir mörgum, hún er samt talin bera í sér guðlega tengingu við Óðinn æðstan goða sem hafði til að bera gáfur, þekkingu, rök og málsnilld. Rúnin felur í sér þrjú megin hugtök; visku, samskiptahæfni og innblástur og er því talin forspá guðlegrar leiðsagnar. Undirtónn þessarar rúnar er að taka á móti og þiggja; skilaboð, ábendingar eða gjafir. Getur einnig falið í sér siðblindu þar sem beitt er brögðum sem leiða til misskilnings blekkinga og lyga. Óðinn var mikill, en óútreiknanlegur guð sem hafði alltaf sína eigin áform.

Völuspá áss; hugsanlega er þetta tákn breytinga. Nýtt líf hefst með nýjum samböndum, óvæntum tengslum sem beina okkur á nýjar brautir. Rúnin ás er einnig kennd við ós, ósinn er staður þar sem tveir heimar mætast með endalokum og nýju upphafi. Leitaðu þekkingar og vertu tilbúinn að fórna einhverju fyrir hana, Óðinn fórnaði auganu í staðinn fyrir viskuna úr Mímisbrunni og hékk níu nætur á lífsins tré til að öðlast þekkingu rúnanna. Hæfileikar þínir munu blómstra ef þú beitir þeim með þekkingu og andagift. Beittu tungunni og innsæinu til að bæta stöðu þína og til þess að láta í ljós vilja þinn og skoðanir.

Loka annmarkar áss; misskilningur, blekkingar, hégómi. Varast skal málglaða loddara, erfitt getur reynst að greina á milli visku eða fláræði sem stafar af valdagræðgi og leiðir til misbeitingar valds.

Rúnin ás hljómar bókstafina A – Á , frumefni loft, pólun karl, steinn jaspis, rún Óðins og Loka.

Óss er aldingautur

og Ásgarðs jöfur

og Valhallar vísi

Júpíter oddviti


Reið

Reið

Reið – Raidho; vagn, ferðalag, umskipti. Reið er rún Þórs og stendur fyrir ferð hans um himinhvolfið á þrumuvagninum. Til að njóta augnabliksins er það ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir höfuð máli og vegvísirinn er að fylgja hjartanu. Lífið er eins og ferð í rússíbana og þegar farið er í hann verður hann raunverulegur, svo máttugur er hugurinn. Ferðin getur verið upp og niður, hring eftir hring, með spennandi og hrollvekjandi uppákomum þar sem allt er litað skærum litum, og rólegt þar á milli. Orka reiðar hefur samt lítið að gera með hraða hún er síkvik, jafnvel þó það sé aðeins nokkurra skrefa ferð í ísskápinn, eða setið og hugleitt í sófanum, þá er reiðtúrinn alltaf farin í núinu.

Völuspá reiðar; er þín persónulega upplifun, þitt ævintýralega ferðalag sem erfitt er að miðla með orðum til annarra. Líklega er þessi ferð þín lífið sjálft, ánægjuleg þó þú vitir ekki alltaf hvert stefnir. Vertu rólegur, og á meðan þú bíður skaltu ryðja hindrunum úr vegi. Smám saman munu þær gefa eftir og sektarkenndin hverfa yfir því að hafa ekki alltaf tekist sem skildi. Hugsanlega skiptirðu innan skamms um starf, eða umhverfi, eða þá aðrar veigamiklar breytingar eiga sér stað. En umfram allt njóttu augnabliksins þó lífið taki óvænta stefnu. Það er alltaf hægt að segja ferðasöguna seinna, en reið er að njóta ferðarinnar sjálfrar.

Loka annmarkar reiðar; undir ákveðnum kringumstæðum getur rúnin táknað ferð milli heima, þ.e. dauða. Hjakkaðu því ekki í sama farinu, láttu ekki kjarkleysi og smávægilegar hindranir stöðva þig í að upplifa í þessum heimi það sem þú átt skilið.

Rúnin reið hljómar bókstafinn R, frumefni er loft, pólun karl, steinn kalsedón, rún Þórs.

Sá einn veit

er víða ratar

og hefir fjöld um farið

hverju geði

stýrir gumna hver

sá er vitandi er vits


Þurs

Þurs

Þurs – Thusiaz; ógn, eyðilegging, uppgjör. Hverfult afl sem rífur niður. Rúnin Þurs er rún Mjölnis, hamars Þórs og stendur fyrir óútreiknanlegri orku stríðandi afla, í baráttu jötna við Þór í þrumuvagninum. Þursið hefur sterka skírskotun til samtímans þar sem ráðandi öfl telja að best sé að tryggja friðinn með því að ráðast gegn hinu illa. Þegar þannig háttar er rétt að hinkra við, skoða fortíðina og draga ályktanir af því hvað sé raunverulega hið illa. Munurinn á Þór og þursum, frændum sjónhverfinga goðsins Loka, þarf ekki að vera auðsjáanlegur. Stundum er Þurs líkt við hvassan þyrni, fagran en illskeyttan sem enginn mannlegur máttur fær staðist.

Völuspá Þursins; þegar þú verður að berjast fyrir friði, finndu þá frið í baráttunni. Ef sjúkdómar, slys eða aðrar ófarir hafa orðið á vegi þínum bendir rún Þursins á að þú hafir verk að vinna í sjálfum þér, hjá því verði ekki komist. Því náttúruöflin og aðrir kraftar sem þú færð ekki við ráðið eru þér óhagstæðir. Skoðaðu fortíðina; gleðina, sigrana og sorgirnar, allt sem hefur stuðlað að því að þú ert hingað kominn. Besta andlega ástandið til að vinna úr stöðunni er áhugi og velvilji, sem munu gagnast við að halda vitundinni vakandi. Allt frekar en reiði eða ótti, sem munu auka hættuna á að þú þurfir að berjast við Þursið síðar af öllum lífs og sálar kröftum .

Loka annmarkar Þursins; gættu þín á lygum, svikum og hatri, án þess þó fyllast takmarkalausri tortryggni. Farðu með gát gagnvart fólki sem þú hefur ástæðu til að ætla illgjarnt og meinfýsið.

Rúnin Þurs hljómar bókstafinn Þ, frumefni eldur, pólun karl, steinn safír, rún Þórs.

Það kann eg hið þriðja

ef mér verður þörf mikil

hafts við mína heiftmögu

eggjar eg deyfi minna andskota

bíta-t þeim vopn né velir


Týr

Týr

Týr – Tiwaz; leiðtogi, herkænska, skipulag. Þessi rún vekur upp kraft til að skera á bönd þess liðna og vita hvar sannur styrkur liggur. „Sá er einn ás er Týr heitir. Hann er djarfastur og best hugaður, og hann ræður mjög sigri í orrustum“; segir í Gylfaginningu. Týr var nógu hugrakkur til að leggja höndina að veði svo fjötra mætti Fenrisúlf og gera þannig Miðgarð að öruggari stað fyrir mannkynið, þó svo hann missti höndina þar með. Þetta er rún leiðtogans sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Týr er rún réttvísinnar sem mun koma jafnvægi á vogaskálarnar með sanngjarnri málsmeðferð og niðurstöðu.

Völuspá Týs; hæfileikar þínir blómstra og skila þér árangri, þegar þú stendur í baráttu og ert tilbúinn að leggja fram fórnir svo réttlætinu verði fullnægt. Vertu óhræddur við að taka áhættu, en taktu hagsmuni heildarinnar fram yfir þína eigin. Beittu stjórnkænsku og vertu agaður. Þegar málefnið snýst um ástina og rúnin Týr er annars vegar, merkir það að tiltekið samband sé tímabært og stjórnist af guðlegri forsjón. Þið eigið vel saman og ykkar bíða verkefni sem þið getið leyst í sameiningu. Dygð þessarar rúnar er samvinna og þolinmæði.

Loka annmarkar Týs; varaðu þig á andlegri deyfð. Fórnaðu ekki sjálfum þér eða því sem er þér mikils virði nema að vera viss um málstaðinn. Forðastu deilur, óréttlæti og ójafnvægi.

Rúnin Týr hljómar bókstafinn T, frumefni loft, pólun karl, steinn kórall, rún Týs.

Týr er einhendr áss

ok ulfs leifar

ok hofa hilmir

Mars tiggi


Kaun

Kano

Kaun – Kenaz; þjáning, opnun, eldur, innblástur. Þetta er rún opnunar, aukins skilnings, birtu sem lýsir upp myrkrið. Rúnin stendur einnig fyrir hreinskilni, þroska og innblæstri sem hlotist getur af þjáningu. Rúnin er nefnd kaun í gömlu íslensku rúnakvæði, en táknar í reynd ljós. Í vöggugjöf fær hver og einn sitt leiðarljós, kyndil sem hann verður að bera í gegnum myrkrið, afl til að búa til eigin veruleika, sem verður að hafa mátt ljóssins. En stundum getur verið nauðsynlegt grafa djúpt í myrkrið til að upplýsa þekkingu sem mun hjálpa og það getur valdið sársauka. Líkt og mistök þá eru sár (kaun) til þess ætluð að læra af þeim, vísa veginn til þekkingar.

Völuspá kauna; sársuki lýsir þér veginn í myrkrinu, mun eyða skuggum fáfræði og hjálpar þér til að sjá af sannri skynsemi. Þú hefur öðlast hæfni og styrk til að nýta kraft augnabliksins. Þó þú hafir upplifað þjáningu, jafnvel gengið í gegnum niðurlægjandi lífsreynslu, mun það gera þig að betri manneskju og mun jafnvel færa þér hamingju þegar fram líða stundir. Kaun eru því lík kyndli sem uppljómar bókasafn, vísdóm sem er hlaðinn ótakmörkuðum möguleikum. Hafðu samt hugfast landakort vísar aðeins veginn en er ekki landið sjálft. Mundu að auðmýkt er kostur góðs nemanda, því það er ómögulegt að læra það sem þú telur þig þegar vita.

Loka annmarkar kauna; ekki gera óraunhæfar kröfur og gættu þín á tálsýnum. Kúnstin felst ekki í að telja sig vita, heldur kunna. Bilið þar á milli getur leitt til lævísi og blekkinga, sem leiða ævinlega til ills.

Kaun hljómar bókstafinn K, frumefni eldur, pólun kona, steinn blóðsteinn, rún Freyju og Heimdallar.

Kaun er barna böl

ok bardaga för

ok holdfúa hús

flagella konungr


Jörð

Jörð II

Jörð – Jera; tímamót, uppskera, frjósemi. Jörð boðar góðan árangur og á það við öll áform og framkvæmdir. Jörð er rún árs og friðar, hringferils jarðarinnar í kringum sólina. Rúnin stendur fyrir ferli þar sem réttar tímasetningar og skipulag eru grundvöllur árangurs. Hringrás árstíðanna á lítið skylt við klukku þó hún tengist tíma, sá tími á samleið með andardrætti jarðar, hrynjanda svefns og vöku, rökkurs og dögunar, sem eru sömu lögmál veita aðgang að frjósemi jarðar. Náttúran hefur sinn hátt á, þar sem ekkert verður þvingað fram. Breytingar til hins betra virðast oft léttvægar, en verða samt jafn óhjákvæmilega og ferð jarðarinnar í kringum sólina.

Völuspá jarðar; þú stendur á tímamótum, sérð árangur erfiðis þíns og hugar að næstu skrefum. Hringrás jarðar hvetur þig til bjartsýni og ráðleggur jafnframt þolinmæði, því allt tekur sinn tíma. Sýndu fyrirhyggju og skipuleggðu tímasetningar, lykilorð þessarar rúnar er eitt ár þá getur uppskeran hafist. Viðleitni þín mun koma í veg fyrir stöðnun og verða að veruleika í hringrás alheimsins, þar sem allt hefur sinn tíma. Jörð skýrir spakmæli á við "Fari svo sem fara vill“, "Eins og þú sáir, svo skalt þú uppskera", og "tíminn læknar öll sár". Tímamörk í takti við hringrás jarðar kalla fram það besta í þér og hvetja til vaxtar umfram núverandi getu, til að grípa til aðgerða þegar tíminn er réttur.

Loka annmarkar jarðar; forðastu átök minnugur þess að sá vægir sem vitið hefur meira. Láttu ekki minniháttar ósigra villa þér sýn þegar það eru aðeins skyndileg stóráföll sem geta komið í veg fyrir uppskeru.

Rúnin jörð hljómar bókstafina J – Y, frumefni jörð, pólun karla og kona, steinn karneol, rún Freys og Freyju.

Ár var alda

þar er Ýmir byggði

var-a sandur né sær

né svalar unnir

jörð fannst æva

né upphiminn

gap var Ginnunga

en gras hvergi

 


Uxi

Úruz

Uxi – Uruz; karlmennska, kraftur, þolinmæði, tækifæri, nýtt upphaf. Þrautseigja lífsins og óþrjótandi útsjónarsemi felst í rún Uxans. Hún er birtingarmynd endurnýjaðs þreks, líkt og nautshúðin sem stöðugt endurnýjar slitstyrk sinn. Þannig verndar orka rúnarinnar sálina fyrir sárum með sjálfsheilandi orku, heldur aftur af hverskonar sjúkdómum og illum áformum. Snýr afvegaleiddum áformum aftur til krafts og heilbrigðis, í þá mynd sem þau voru þegar þau fengu lögun og líf í tómarúmi Ginnungagaps. Uxinn er því áunnið vald mótað af sjálfi sem vill breytingar til hins betra.

Völuspá Uxans; þessi rún bendir til þess að nýtt skeið sé að hefjast í lífi þínu. Þú er heilsuhraustur, sterkur, þrautseigur, þolinmóður og kynþokkafullur. Nú er tækifæri til til að breyta sjálfum sér, lagaðu þig að kröfum þessa skapandi tíma. Lífsreglur eru bundnar þessari rún sem gera kröfu um auðmýkt og lítillæti, því til þess að geta stjórnað þarftu fyrst að kunna að þjóna. Stefndu fram á við, skref fyrir skref. Þær áætlanir sem þú hrindir í framkvæmd munu vaxa og dafna, óplægður akur mun gefa nýja uppskeru. Styrkur þinn, þrautseigja og þolinmæði vinna með þér. Hugsaðu vel um heilsuna.

Loka annmarkar Uxa; forðastu tuddaskap, losta, grimmd og frekju. Láttu ekki hroka og fáfræði verða þér fjötur um fót.

Rúnin Uxi hljómar stafina U-Ú, frumefni jörð, pólun karl, steinn smaragður, rún Þórs.

Ósnjallur maður

hyggst munu ey lifa

ef hann við víg varast

En elli gefur

honum engi frið

þótt honum geirar gefi


Vernd

Vernd II

Vernd – Wunjo; gleði, ljós, þægindi, rún þess sem ber ávöxt. Vernd er rún Freyju og þeirrar hagsældar sem hún stendur fyrir, rúnin tengist umbun, tilfinningu um gæsku og ánægju við að ná farsælum ávinningi, og fullkomnum árangri. Rúnin getur einnig gefið til kynna umsnúning af einhverju tagi, yfirleitt til hins betra. Vernd ber með sér viðurkenningu á verðleikum, og velgengni kemst í fastar skorður. Hún er rún lausna en ekki vandamála, rún frjósemi og unaðar umfram allt annað. Rúnin inniheldur vissuna um að allt fari vel, einnig náið samstarf og félagsskap við annað fólk.

Völuspá verndar; erfiðleikarnir eru liðnir hjá og jákvæð umskipti eiga sér stað í lífi þínu. Þú uppskerð árangur og virðingu og að vissu leiti ertu kominn til sjálfs þín. Hamingjan er þín ef þú ert tilbúin til að meðtaka hana. Til að hamingjan endist verður hún að byggja á heiðarleika. Að fela sannleikann er að fela hamingjuna. Leitaðu að því sem er gott og rétt, og gæfan mun fylgja í kjölfarið. Sú breyting sem vænst var á sér stað og nú geturðu notið blessunar hennar, hvort sem hún var í formi efnahagslegs ábata eða auknum skilningi þínum á eigin þörfum. Fagnaðu breyttum aðstæðum.

Loka annmarkar verndar; forðastu óraunsæi, öfgar og óhóf. Hafðu hemil á löngunum og beindu þeim í réttan farveg.

Rúnin vernd hljómar bókstafinn V, frumefni vatn, pólun karl, steinn demantur, rún Freyju, Frigg og Óðins.

Eldur er bestur

með ýta sonum

og sólar sýn

heilyndi sitt

ef maður hafa náir

án við löst að lifa


Yngvi

Yngvi II

Yngvi – Ingwas; karlmennska, frjósemi, traust. Yngvi er rún Freys, konunglegra dyggða og skynsemi. Rúnin ber gamalt konungsheiti stundum rakið til Yngva konungs í Tyrklandi sem jafnvel hefur verið talinn sjálfur Freyr. Yngvi er jafnframt rún einangrunar eða aðskilnaðar í því skyni að búa til aðstæður þar sem ferli umbreytinga getur átt sér stað. Þetta er rún meðgöngu innri vaxtar. Það sem oftast misferst við að ná töfrandi niðurstöðu felst í treganum við að sleppa því liðna svo það nýja geti fæðst. Allir lifa í fortíðinni á einn eða annan hátt, en til að hleypa nýrri orku að, og nýjum gildum, þarf að virða lögmál náttúrunnar, það gamla verður að fá að deyja.

Völuspá Yngva; Yngvi er einn af dvergunum sem nefndur er í Völuspár þegar gullöld ríkti á meðal goða, sem hlaut þó skjótan endi með komu þriggja þursameyja úr Jötunheimum. Yngvi er liður í hringferli, þú gætir þurft að draga þig í hlé um stund og undirbúa þig fyrir nýjan tíma með því að efla sjálfsþroska. Þegar einveran hættir að vera einmanaleiki ertu orðinn frjáls að því að heiðra nýjan stað. Rúnin markar tímamót, stórkostlegs frelsis og nýtt líf, eða nýja leið. Hún sýnir að þú hefur öðlast nægilegan styrk til að fullkomna ákveðið verk með því að vera traustur og taka af skarið. Traust ríkir þar sem þú hefur frumkvæði því þú ert ráðagóður. Hlustaðu á sjálfan þig.

Loka annmarkar Yngva; varastu tregðu til breytinga, þrældóm og óþarfa erfiði. Getuleysið felur sig í stöðnun þess sem var.

Rúnin Yngvi hljómar bókstafina N - G, frumefni jörð og vatn, pólun karl, steinn raf, rún Freys.

 

Álfur og Yngvi,

Eikinskjaldi

Fjalar og Frosti

Finnur og Ginnar

það mun upp

meðan öld lifir

langniðja tal

Lofars hafað


Elgur

Elgur

Elgur – Algiz; er tákn hugrekkis þess öfluga dýrs sem rúnin er kennd við. Á tímum umskipta er mikilvægt að halda tilfinningunum í skefjum. Þegar Óðinn æðstur goða fórnaði sér til að öðlast vísdóm rúnanna má túlka það sem svo að hann hafi verið að setja okkur fordæmi; að fórna því sem gerir okkur lítilfjörleg, um leið losa fjötra fíkna og lasta. Elgur er sterkur orkugjafi í tilveru sjálfsins án þess að leiða til eigingirni, verndandi kennisetning sem stuðlar sjálfsforræði og trú. Hugrekki er að horfast í augu við óttan, ekki líta undan, því óttinn er viðvörun um að það þurfi að koma upp vörnum. Elgur veitir dómgreind til réttra ákvarðana. Þessari rún fylgja ný tækifæri og áskoranir.

Völuspá elgsins; Þú ert afkastamikill, hugrakkur og áræðinn. Hindrunum er rutt úr vegi og óvinir láta undan. Þessari rún fylgja því ný tækifæri og fleiri áskoranir. Horn elgsins er bæði öflug sem vopn til að verjast hættu, og til að ryðja burt hindrunum. Vertu samt vakandi fyrir því sem fer fram innra með þér og umhverfis þig. Þú getur aldrei flúið lífið með því að loka augunum fyrir því sem er. Vernd þín felst í vitneskjunni um að velgengnin muni viðhalda þeirri stöðu sem þú hefur þegar náð. Fylgdu eðlishvötinni við að yfirstíga þær hindranir sem á vegi þínum verða.

Loka annmarkar elgsins; forðastu óþarfa tortryggni og ekki forðast hættu sem þarf að yfirstíga. Eyddu ekki orku í þann óþarfa að viðurkenna ekki það sem verður ekki hjá komist að yfirstíga.

Rúnin elgur hljómar bókstafinn Z, frumefni loft, pólun karl, steinn ametýst, rún Heimdalls.

Að hyggjandi sinni

skylit maður hræsinn vera

heldur gætinn að geði

þá er horskur og þögull

kemur heimisgarða til

sjaldan verður víti vörum

Því að óbrigðra vin

fær maður aldregi

en manvit mikið


Gjöf

Gjöf

Gjöf – Gebo; félagskapur, traust, virðing. Þessi rún sýnir fram á samband eða félagsskap. Sannar gjafir eru tákn kærleika og frelsis, en gjöf getur líka verið skuldbinding. Gjöf er einn mesti gæfuboði rúnanna. Hún stendur fyrir það mikilvægasta sem nokkur maður getur gefið eða þegið; sanna vináttu og kærleika. Með hverri gjöf fylgir ástæða. Í Hávamálum, lífsspeki Óðins um alheims lögmálið, er þetta að finna „Vin sínum skal maður vinur vera og gjalda gjöf við gjöf. ... og vilt þú af honum gott geta, geði skaltu við þann blanda og gjöfum skipta,,,“ eins; “ æ sér gjöf til gjalda“, sem vísar til þess að sá sem gefur væntir þess að fá eitthvað í staðinn.

Völuspá gjafarinnar; þú nýtur áreynslulauss trausts og gæfu, gefur og þiggur. Sambönd blómstra og hugsanlega stendur þú frammi fyrir kærkominni skuldbindingu. Samt sem áður verðurðu að leggja rækt við vináttusambönd og vera fús til að stofna til nýrra með því að skuldbinda þig og sýna gjafmildi. Um leið ertu varaður við að vera ekki of eftirlátur. Sannur félagsskapur getur aðeins orðið á milli tveggja eða fleiri einstaklinga sem eru aðskildir en standa saman. Þessi ráðlegging á við hverskonar félagsskap, ekki síst við samband þitt við æðri máttarvöld. Vertu bjartsýnn og einlægur.

Loka annmarkar gjafar; mundu að æ sér gjöf til gjalda. Láttu því ekki græðgina hlaupa með þig í gönur. Forðastu varasamar gjafir sem geta leitt til gjaldskyldu og ósjálfstæðis.

Rúnin gjöf hljómar bókstafinn G, frumefni loft, pólun kona og karl, steinn ópal, rún Óðins og Gefjunar.

Veistu

ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta

geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta

fara að finna oft


Nauð

Nauð II

Nauð – Nauthiz; nauðsyn, þvingun, átök, og viljastyrkur til að sigrast á þeim. Rúninni nauð fylgir orka sem til verður fyrir brýna þörf. Skynsemin eru ekki alltaf auðsýnileg, því langanir og hugsjónir skyggja á það sem þörf er að gera við erfiðar aðstæður. Sem átaka rún styrkir nauð, vekur upp hugrekki og visku til að viðurkenna hvað þarf í raun að takast á við í erfiðum aðstæðum. Nauð er því rún þess sem er nauðsynlegt og ekki hægt að komast hjá. Rúnin getur falið í sér viðvörun um erfiðleika, tíma til að ástunda þolinmæði, draga ekki ákvarðanatöku og klára það sem byrjað hefur verið á.

Völuspá nauðar; þessa rún má túlka þannig að alheimurinn sé að sýna þér að þú sért að lifa lífi sem er of lítið. Sem þýðir að þér er bent á að verða þitt sanna sjálf. Lífinu er ætlað að vera gott, því er ekki ætlað að halda aftur af okkur. Nauð segir þér að taka upp þann hátt sem nær til innsta kjarna þíns og lifa samkvæmt því sem þér er mikilvægast. Mundu að það sem ekki drepur þig, herðir þig. Þessi rún sýnir fram á þær hindranir sem þú setur sjálfum þér og hins vegar hindranir af annarra völdum. Það er sitthvað að þurfa og þora, þörfin sprettur af nauðsyn. Það sem við þörfnumst og það sem við þráum þarf ekki alltaf að vera það sama.

Loka annmarkar nauðar; láttu ekki óhóf hefta frelsi þitt, né kosta þig óþarfa áreynslu. Varastu streitu og þunglyndi.

Rúnin nauð hljóðar sem bókstafurinn N, frumefni eldur, pólun kona, steinn blásteinn, rún Skuldar.

Ár skal rísa

sá er á yrkjendur fáa

og ganga síns verka á vit

Margt um dvelur

þann er um morgun sefur

Hálfur er auður und hvötum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband