Færsluflokkur: Lífstíll

Vertu góður við geimveruna

Lifirðu því eftirsóknarverða jarðlífi sem þú komst til að lifa? Ertu góður við geimveruna í sjálfum þér? þetta eru ekki einfaldar spurningar. En ekkert svar er mikilvægara en það sem þú gefur sjálfum þér, það hefur að gera með kjarna þíns sanna sjálfs, sálina. Og þegar spurningunum er svarað er rétt að hafa í huga að við lifum lífinu af eigin tilfinningu, ekki með annarra rökum. Eins klæðumst við efni, en erum ekki úr efni.

Vertu því góður við geimveruna og hlustaða á raddirnar í höfðinu svo framarlega sem þær eru þínar. Manneskjan hefur hvorteð er alltaf verið barn stjarnanna. Siðmenningin kortlagði meir að segja stjörnuhimininn lögnu áður en hún kortlagði jörðina undir fótum okkar, nú á tímum felum við samt stjörnuhimininn með raflýsingu sem lýsir rétt svo niður á tærnar en gerir okkur blind á umhverfið sjálft, allt undir formerkjum vísindalegra framfara og rökhyggju. Við viðurkennum varla sálina lengur, vegna þess að hún er hvorki raflýst né vísindalega áþreifanleg líkt og efnislegur líkaminn. En vitundin um okkur sjálf kemur frá sálinni og við vitum að hún býr ekki í líkamanum, því innst inni greinum við að líkaminn býr í vitund sálarinnar og er farartæki hennar í þessu jarðlífi.

Forfeður okkar voru meðvitaðir um að þeir bjuggu í alheimi þar sem líkaminn var til fyrir óáþreifanlega innri vídd. Þar sem línan var ekki eins skýr á milli sálar og utanaðkomandi veruleika, vegna þess að báðir veruleikarnir þarfnast hvors annars. Sálin var þá stærri hluti hins mikla veruleika og er það reyndar enn. Nú á tímum erum við samt rænd undra ævintýrum ímyndunaraflsins, sakleysisins sem við upplifðum í gegnum visku hjartans með óskeikulu innsæi barnsins. Allt er þetta meira og minna afvegaleitt af efnishyggju og dýrkun á upplýsingar sem okkur eru innrættar frá blautu barnsbeini.

Gervi þörf eftir efnislegri velmegun hefur slitið á tengsl við náttúruna, jafnframt skynjunina á óupplýstan veruleikan sem er umhverfis. Við getum varla sameinast náttúrunni frekar en andlegum verum ævintýraheimsins. Höfum jafnvel snúið bakinu við guðlegum tengingum lífsins, séðum og óséðum , og með því höfum við jafnframt misst samband við okkar sanna sjálf. Við erum aðeins skugginn af sjálfum okkur og upplifum aðeins lítinn hluta þess veruleika sem okkar stendur til boða.

Heimurinn sem við höfum búið okkur líkist æ meir dvalastað djöfulsins. Milljónum saklausra lífa er slátrað á hverjum degi til þess eins að nýta líkama þeirra á veisluborð allsnægtanna og er nú svo komið að aðeins bestu bitarnir rata á diskinn, hitt fer í ruslatunnuna. Villt dýr eru jafnframt drepin einungis sportsins vegna, til dægrastyttingar. Þar kaupa þeir efna meiri leyfi af stofnunum ríkisins til að drepa hreindýr og hika jafnvel ekki við að hirða aðeins lundir og læri. Ef mikilmennum markaðarins, þar sem tíminn er peningar, er síðan bent á að hafa með sér sóðaskapinn heim er svarið „hélstu að ég væri komin út á land til að bera súpukjöt á milli fjarða“.

Sportveiðimenn sem minna hafa á milli handanna stunda magnveiðar á gæsabringum til að selja í fínu veitingahúsin jafnvel með von um að þannig megi fjármagna hreindýraveiðileyfi, eða ferð til Afríku þar sem hægt er að fá að drepa flóðhest í útrýmingarhættu með sjálfum sér á selfí fyrir upphæð sem sögð er fara til að forða tegundinni úr útrýmingarhættu. Dýr eru pínd og kvalin til dauðs í nafni svokallaðra vísinda, í besta falli fyrir græðandi fegrunar krem fyrir aflóga mannfólkið. Allt er þetta gert af fólki sem býr yfir manngæsku og markaðsmenntun. Til að bæta gráu ofan á svart hefur í gegnum tíðina milljónir saklauss fólks verið handtekið, ofsótt og myrt til að ásælast náttúruauðlindir jarðar í nafni tækni og framfara.

Fréttir eru farnar að berast af börnum allt niður í fimm ára aldur, sem eru gefin hugarfarsbreytandi þunglyndislyf eftir vísindalegar greiningar. Foreldrarnir jafnvel orðnir það vel skólaðir að þau seigja frá þeirri „blessun að barnið mitt fékk greiningu því nú veit ég loksins hvað gekk að því“. Þó það sé búið að lyfjavæða sjúkdómsgreiningar vísindanna í bak og fyrir, þá breytir það ekki því að nú er jafnvel rítalín kynslóðin farin að hverfa úr þessum heimi vegna hjartastopps á besta aldri. Þrátt fyrir allar framfarir vísindanna þá er mannskepnan fyrir löngu orðin óheilbrigðasta dýrategund jarðar.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið sótt óumbeðið til saka af lögfróðu fólki vegna ótímabærra dauðsfalla á sjúkrahúsum, því einhver verður að bera ábyrgð þó ekki væri nema hagvaxtarins vegna. Og hvað þegar þeir lögfróðu fá sínu framgengt, breytist þá ekki hlutverk sjúkrahúsa til samræmis við það að flestir enda ævina þar? Er þetta gert í nafni manngæsku og réttlætis, efastu kannski ennþá um að jarðlífið sé umsetið djöfullegum öflum?

Hinn djúpa viska veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sérstaka reynslu í þessum heimi. Þessu fær ekkert breytt, þó svo að allt sé gert til að innræta okkur öllum sama markaðs veruleikann frá vöggu til grafar. Ástæða þess að galdur geimverunnar er ekki upplýstur á okkar tímum er sú að hann brýtur í bága við áþreifanleika markaðsafla sem bera fyrir sig nútíma vísindum á sama hátt og trúarbrögðum fyrri alda. En galdur andans mun vera til staðar löngu eftir að markaðurinn og nútíma vísindi hafa tortímt sjálfum sér. Annað getur aldrei orðið, því að galdur andans er tjáning hinna eilífu umbreytinga. Trúin og skáldskapurinn verður alltaf mikilvægari en staðreyndir vísindanna.

Sem manneskjur skynjum við heiminn með hjartanu á mismunandi hátt vegna okkar mismunandi tilgangs. Til dæmis þá eru álfar og geimverur gerðar úr tungumáli en ekki vísindalegu sannreynanlegu efni, rétt eins og mankynssagan. Við trúum mankynssögunni í röðum af lögnu dauðum blöðum, þó svo að hún sé gerð úr sama tungumáli og álfasögur. Við ferðumst um rúm og tíma með hugsun og máli en ef ferðalagið er ekki samkvæmt innrættu normi neyslunnar er stutt í greiningar og pillur. Okkur er tamið að trúa ekki að geimverur séu til, hvað þá álfar, okkur er jafnframt innrætt að treysta ekki á eigin dómgreind varðandi púkana í okkar eigin lífi. Ef þú hugsar og skilgreinir aðstæður það rökfræðilega að þú hættir að trúa innsæi þínu, þá er greindin farin að vinna gegn þér, því getur verið varasamt að hugsa og skilgreina of mikið þannig hættirðu að nota innsæið við að skilja sjálfan þig.

Erfiðustu flækjur hverrar manneskju snúast um skynsemi rökhugsunarinnar, á meðan viska hjartans segir einfaldlega svona er þetta. Hugsuðurinn veit hvernig allt á að vera þó svo að ekkert hjá honum gangi þegar hann ætlar að framkvæma. Gerandinn framkvæmir og fær allt til að ganga upp með síendurtekinni æfingu þó svo að hann hafi ekki hugsað út í hvers vegna. Rökstudd innræting lífsins færir okkur svo oftast þetta tvennt umsnúið í einum pakka, á þann hátt að ekkert virðist virka og við höfum ekki hugmynd um hvers vegna. Hættu að hlusta á þá sem reyna að segja þér að þú gangir með ranghugmyndir og þeir viti betur hvað þér er fyrir bestu, það er ekki svo, ranghugmyndir eru ekki til ef þær koma frá hjartanu og mundu að rökhugsunin verður aðeins þarfur þjónn ef hún þjónar hjartanu.

Þó þér finnist það vera geggjun að fara á móti hámenntaðri rökfræði nútímans þá má hafa í huga að það er engin mælikvarði á heilbrygði neins að vera viðurkenndur í sjúkum heimi. Jafnvel þó röddin í höfðinu hvísli með akademíuni "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur engin til með bjarga þér frá þínu eigin lífi. Flestir vakana upp frá innrættum álögum lífsins skömmu áður en ævinni lýkur, hafðu það í huga, og að síðasta dansinn í þessu jarðlífi stígur þú einn.


Svartnætti sálarinnar

Á einhverjum tímapunkti í lífinu, gætir þú upplifa svartnætti sálarinnar, þar sem allt virðist hafa farið úrskeiðis sem hugsanlega gat farið úrskeiðis. Það sem margir átta sig ekki strax á, er að þetta er blessun.

Þegar yfir hellist "svartnætti sálarinnar" virðist líf þitt hitta botninn. Þú getur fundið skipsbrot lífsins nánast allsstaðar; fjárhagslega, andlega og líkamlega.

Það sem venjulega gerist hjá þeim sem upplifa "svartnætti sálarinnar" er að við þá bitru reynslu kviknar hugsunin; "hvers vegna kom þetta yfir mig?"

Þegar greiningin hefst getur þú fundið til haturs gagnvart þeim sem lögðu til "svartnætti sálarinnar". Þú gætir efast um skaparann, fundist leiðsögnin bregðast og verndarenglarnir yfirgefa þig. Þetta gæti samt ekki verið fjær sannleikanum.

Þú munt uppgötva að allt það svartnætti sem þú fórst í gegnum gagnast þér til andlegs þroska. Að endingu verður þú undirgefinn í lotningu fyrir öllu því sem heimurinn færir þér án truflunar frá "egóinu" og munt sjá að allt þitt er "í höndum skaparans".

þú ert ríkur þegar þú átt eitthvað sem þú getur ekki keypt fyrir peninga. Það er þar sem vakningin hefst.

"Það er ekki hægt að komast til meðvitundar án sársauka. Fólk gerir allt, sama hversu fáránlegt það er, til að forðast eigin sál. Fólk verður ekki upplýst í birtunni, heldur með því að lýsa upp myrkrið." -Carl Jung.


Er til sál, og hvar hefur hún þá haldið hún sig?

Það má ætla að að fram til þessa hafi almennt verið litið svo á að manneskjan samanstandi af huga, líkama og sál. En það er misjafnt eftir menningarheimum, trúarbrögðum og tíðaranda hvar sálin heldur sig, eða réttara sagt hvar í sjálfsmynd mannsins hún er staðsett eða þá hvort hún fyrirfinnst þar yfir höfuð.

En ef sjálfsmyndin hefur sál þá má ætla að líkaminn sé bústaður hugans, jafnframt því að vera farartæki sálarinnar í efnisheiminum. Hugurinn hafi að geima persónuleikann sem við staðsetjum okkur með gagnvart öðrum, stundum kallað egó. Sálin sé svo hin æðri vitund sem tengist alheimsorkunni, nokkurskonar stýrikerfi huga og líkama í gegnum lífið. 

Það fer samt lítið fyrir sálinni í tæknivæddri upplýsingaveröld nútímans. Hafa nútíma vísindi jafnvel efast um að til sé eitthvað sem lifi dauðann líkt og sál. Fornar hugmyndir fólks s.s. þess sem nam Ísland fyrir meira en 1000 árum gerði ráð fyrir öðruvísi sjálfsmyndin. Hún samanstóð að mestu af ham, hamingju, huga og fylgju. Þessir þættir sköpuðu manneskjunni örlög. Þetta kann að virðast torskilið í nútímanum en ef heiðin minni og þjóðsögur eru skoðaðar þá var margt í umhverfinu sem hafði áhrif.

Náttúran var t.d. mun stærri hluti af vitundinni en hún er í dag. Þar gátu búið duttlungafullar vættir í steinum, hólum og hæðum, allt um kring, oftast ósýnilegar. Eins las fólk í atferli fugla og dýra. Haldnar voru hátíðir um vetrarsólstöður og önnur árstíðaskipti til að hylla heilladísir og blóta goðin. Fólk taldi sig jafnvel getað séð óorðna atburði með því að sitja á krossgötum á réttu augnabliki.

Ef reynt er að setja sjálfsmynd fornmanna í samhengi við vestrænar hugmyndir dagsins í dag þá mætti skilgreina ham sem líkama. Þetta þarf samt ekki að vera alveg klipp og skorið því til forna var talið að menn gætu verið hamrammir eins og greint er frá í Egilssögu að Kveldúlfur hafi verið. Á kvöldin varð hann svefnstyggur og afundinn, þaðan var viðurnefnið komið. Eins var talað um hamskipti, þjóðsögurnar skýra þessi fyrirbæri ágætlega og hver hin forna meining er á íslenskri tungu.

Við tölum t.d. enn um hamhleypur til verka, þegar menn herða upp hugann líkamanum til hjálpar. Það má kannski segja sem svo að hugurinn sé á margan hátt með sömu merkingu í dag og til forna. Þó mun hann sennilegast hafa verið meira notaður til hjálpar líkamanum áður fyrr. En í dag þegar hann hneigist meira til þeirrar sjálfhverfu sem einkennir nútímann, enda líf fólks áður meira bundið líkamlegu striti.

Hamingjan var ekki öllum gefin frekar en skýra gull og fólk gat lítið aðhafst til að ávinna sér hana. Miklu af lífsins gæðum hafði þegar verið úthlutað við fæðingu. Þar voru það örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld sem sáu um að útbúa forlög mannanna. En nú á tímum líta menn meira til hamingjunnar sem huglægs ástands.

Eitt var þó til forna, sem mátti hafa áhrif á til heilla, en það var sjálf fæðingafylgjan. Hana bar að fara vel með því í henni bjó sú heill barnsins sem kæmi til með að fylgja því í gegnum lífið. Ef fæðingafylgjunni var t.d. fleygt á viðavangi var heill barnsins óvarin og tók þá fylgja barnsins mynd þess sem fyrst kom, er talið að þessa hafi mátt sjá merkis í nöfnum manna s.s. Kveld-Úlfur, Hrafna-Flóki osfv.. 

Auðveldasta leiðin til að átta sig á hvar í mismunandi sjálfsmynd sálin er fólgin, er að kanna viðhorf til dauðans. Nútímamanninum getur virst erfitt að skilja hvernig litið var á dauðann í fornri heiðni. Hetjudauðinn var þar ávinningur samanber eilíf veisluhöld vígamanna í Valhöll að kvöldi hvers dags, gagnvart því að þurfa að þola þrautir og liggja köld kör Heljar.

Þessar tvær birtingarmyndir dauðans voru litaðar sterkum litum til að auðvelda gönguna um lífsveginn æðrulaust og án ótta við dauðann. Æðsta markmið var að mæta örlögum sínum óttalaus. Taka dauðanum með óbilandi rósemd, og þola kvalir hans af karlmennsku.

Nú á dögum er algengara að fólk taki pillur til að sefa óttan. Leggist jafnvel meðvitað í kör á meðan vottur af lífsneista er til staðar, þó það viti að það verði svo ósjálfbjarga að það komi til með að vera tengt slöngum og dælt ofaní það með vél. Nútíminn gerir ekki mikið með eilífð óttalausrar sálar.

Hvar sálina var að finna í heiðni er greinanlegt af viðhorfi fólks til forlagana og dauðans. Sálin bjó með manneskjunni og var henni meðvituð dags daglega. Það sem meira var að til forna voru dauðir heygðir og helstu verkfærum sem kæmu að gangi í framhaldslífinu var með komið s.s. vopnum til Valahallarvistar. Í vissan tíma var litið svo á að haugbúinn væri á milli heima, ennþá að hluta í þessum sem draugur.

Nú á tímum hefur sálin verið einangruð frá efnisheiminum, þar sem hugur og líkami dvelja í síauknum hraða tækninnar. Dauðinn er að verða myrkvaður endir alls og flestir karlægir áður en til hans kemur. Hvað er til ráða? ,,, kyrra hugann?


Draumar - skilaboð sálarinnar

Draumar eru vegvísar á leið til sjálfsþekkingar. Við eyðum þriðjungi lífsins í svefn, hugsanlega allt að 30 árum. Það er mikill tími, hugsaðu þér bara hvað mikið mætti læra á 30 árum í vöku. En í reynd eru draumar svona mikils virði fyrir sálarheill einstaklingsins. Carl Jung, einn virtasti sálfræðingur 20. aldarinnar, þróaði aðferð svo skjólstæðingar hans gætu nýtt sér drauma sína sem mikilvirka leið til sjálfseflingar.

Draumurinn er hinn duldi aðgangur að leyndardómum sálarinnar, sem opnar leiðina út í stjörnubjartan alheiminn, sem var bústaður sálarinnar lögnu áður en sjálfsvitundin varð til, og alheimurinn mun áfram verða sálarinnar sama hvað sjálfsvitundin nær langt. –Carl Jung

Í verkum sínum skrifaði Jung m.a. um máttinn sem felst í því að geta skilið táknin sem birtast í draumi svo einstaklingurinn megi fá skýrari sýn á vegferð sína. Samkvæmt Jung, eru draumar nokkurskonar sýnikennsla sem stígur upp úr undirmeðvitundinni til þess ætluð að hjálpa honum að greina möguleikana sem honum standa opnir.

Draumar eru óháðir þeir lúta ekki rökum eru því hvorki háðir vilja né ásetningi, eru nánast eins og hreint náttúruafl. Þeir sýna okkur órökstuddan sannleika og innihalda því boðskap sem ekkert annað getur innihaldið, en gefa okkur samt sem áður sýn á það sem samræmist eðli okkar, þegar vitund okkar hefur blindast. – Carl Jung

Það sem er svo heillandi við drauma er að táknmyndir þeirra hafa sömu merkingu fyrir fjöldann. Við erum öll hluti af sömu samvisku, einhverskonar lifandi gagnabanka, sem stöðugt bætist í. Þess vegna finnur táknafræði draumanna svörun hjá svo mörgum með svipuðum táknum.

Tákn eru uppskrift að sálarró í hinu óþekkta. – Carl Jung

En öll erum við einstök því verður draumurinn aðeins túlkaður af þér, kannski með smá aðstoð frá öðrum. Að lesa drauma eru forn fræði, sem tilheyrðu oft spákonunni eða miðlinum, þeim sem gátu vísað leiðina í gegnum leyndardóminn, svo hægt væri að eiga samskipti við hina miklu visku undirvitundarinnar.

Draumar geta t.d. sýnt hluta þeirra möguleika sem ekki var tekið eftir í vöku. Líkt og hver maður hefur sína upplifun á hverjum atburði og tekur þar af leiðandi eftir mismunandi atvikum. Í draumnum getur því það birts sem fór framhjá einstaklingnum í vöku vegna þess að eitthvað annað sem þótti mikilsverðara yfirtók athyglina.

Það er ekki bara að draumurinn fari ekki að vilja okkar, heldur er hann oft í mótsögn við meðvituð áform. Hlutverk slíkra drauma getur því verið að bera saman vissar ólíkar staðreyndir eða möguleika, og koma þannig á einhverskonar leiðréttingu eða endurbót í vöku.

Draumar eru því mjög þýðingarmiklir, þar sem þeir birta undirvitundina betur en nokkuð annað. Þeir eru nokkurskonar gat, sem hægt er að kíkja í gegnum inn í undirvitundina. Þeir geta bæði verið sundurlaust rugl frá hinum persónulega hluta undirvitundarinnar eða þrungnir merkingu fyrir dreymandann.

Draumar geta því allt eins verið sendingar frá vitundinni. Jafnvel  raunveruleg vitneskja, sem meðvitundin, hið persónubundna „ég“ tók ekki eftir, en kemur fram í svefni vegna þess að í vöku var því ekki veitt eftirtekt.

Þetta persónubundna "ég" hverfur til draumsins að nóttu, líkt og það gerir fyrir fullt og allt við lok æviskeiðsins. Draumurinn er því að áliti Jungs nokkurskonar miðill á milli dulvitundar og meðvitundar, milli sálarinnar og hins einangraða einstaklings.


Tilvera sálarinnar í veröld rökhugsunar

Tómleg iðja: Félagslegi veruleikinn er tálsýn. Um er að ræða rökfræðilegt verkefni sem ætlað er að halda okkur uppteknum, dreifa athyglinni og halda aftur af sköpunargáfu, og um leið leggja grundvöllinn að þeim veruleika sem við lifum. Hvert og eitt okkar fæðist einstakt og skapandi, á sinn tilfinningalega og vitsmunalega hátt. Samfélagslegi veruleikinn heftir skapandi kraft ímyndunaraflsins og takmarkar getu einstaklingsins til að lifa í þeim tilgangi sem hann kom í þennan heim til að njóta. Margir gera sér ekki einu sinni grein fyrir því hver tilgangur lífsins er, þau eru svo fá tækifærin í nútímasamfélagi til að láta ljós sálarinnar skína, hvað þá til að leifa henni að dafna.

Út af sporinu: Það er mýgrútur þátta í okkar félagslega umhverfi sem er sérstaklega til þess hannaður að halda okkur óttaslegnum og uppteknum við allt annað en okkar langanir. Því betur sem tekst að halda okkur ánægðum með afþreyingu, því afvegaleiddari verðum við frá því að skapa okkar umhverfi. Meir að segja áður en við höfum áttað okkur á því hvernig við upplifum okkur sjálf hefur umhverfið verið fyllt af alskins rökfræðilegu áreiti sem vekur viðbrögð á við reiði, afneitun, afskiptaleysi og tómlæti. Þessir þættir daglegrar reynslu hindra okkur í að tengjast alheiminum. Að endingu sitjum við allt eins uppi með hugsun og líkama, án hjartagæsku og sálar.

Frumhvötin: Félagslegri stöðu okkar er þröngt skorinn stakkur sem markar reynslu okkar og upplifun. Það að komast af hefur orðið að verkefni daglegs lífs. Við erum skilyrt af ógreinanlegum öflum til að láta af okkar eðlilegu, vitsmunalega- og tilfinningalegum viðbrögðum, í skiptum fyrir samkeppni, örvæntingu og eigingirni, sem blindar sýn okkar sanna tilgangs. Þetta dregur úr mætti þess upplýsta huga sem má finna í hjartanu og að endingu lokar það fyrir traustið á innsæi sálarinnar. Við drepum hluta af sjálfum okkur daglega með því að tortryggja getu okkar, með ótta og óvissu um að geta ekki uppfyllt langanir okkar,lifað og dafnað á eigin forsemdum í samfélagi við aðra.

Móðan á speglinum: Hugur okkar er eins og villugjörn þoka þar sem við eigrum um í hringi og villumst. Hugsanir okkar vekja oft upp kvíða, efa og skeytingaleysi. Óuppfylltar væntingar og loforð einkenna tilveruna. Við leyfum hugsunum okkar að menga hugann með fordómum, tvískynungi og tortryggni í stað þess að upplifa okkur í orku og öryggi. Viðhorfið til veruleika okkar sjálfra og annarra er oft fullt af ranghugmyndum. Hliðin sem við snúum að heiminum skilyrðist fyrst og fremst af rökfastri stofnana uppfræðslu og trúarbrögðum, á kostnað sköpunargáfunnar.

Í ólgusjó: Við náum ekki einu sinni að halda okkur í yfirborði tifinningalegrar vitundar og tjáningar. Sjálfhverfan hefur tekið stjórnina í tilveru okkar, því við verðum að vera virkir þátttakendur í félagslegum veruleika. Þegar við upplifum tilfinningar, er það oft öldurót með djúpum dölum og toppum. Tilfinningarnar brotna svo eins og brim við grýtta strönd í formi reiði, missis og sorgar. Þráhyggja okkar og ásókn í félagslegan samanburð bindur okkur við neikvæðar tilfinningar sem takmarka okkur vegna endalausra efasemda um stöðu og getu. Farvegur hugsana okkar kaffærir ítrekað möguleikana sem við vitum af í hjartanu.

Neisti hjartans: Hjartað geymir lykilinn að því að opnar okkur leið í gegnum þokuna til fjölvíddarinnar. Þar er segulorkan, sem virkjar ímyndunaraflið, orka þess er kjarni tilverunnar. Það sameinar líkama okkar og huga við innsæi sálarinnar. Hjartað hefur samskiptin við alheiminn, neisti þess er miðpunktur okkar persónulegu uppsprettu. Það er miðdepill sköpunargáfunnar og miðillinn sem tjáir anda okkar í þessum heimi. Hjartað slær fyrir tilstilli eilífs neista alheimsins sem hreinsar hugsanir okkar og umbreytir tilfinningalegri reynslu. Og þegar við gerum eitthvað með hjartanu verður það einstakt.

Hringiða viskunnar: Innsæið er hinn helgi spírall sem fyllir arfleið okkar ódauðlegri tilveru. Þegar við sameinumst innsæi okkar í hlutfallslegu jafnvægi eðlishvata, vitsmuna og tilfinninga, frelsum við okkur úr álögum félagslegs samanburðar. Ímyndunaraflið kemur í stað sjálfsins þegar við komumst yfir í þá vídd. Við umbreytumst í tjáningu alheimsins. Orka vitundar okkar tengir okkur við andann. Innsæi er brúin sem tengir sköpunargáfu okkar við veruleikann. Þar finnum við tilgang umbreytingarinnar, uppruna sálar okkar og mótum okkar framtíðarsýn og möguleika samkvæmt því.

Hjartans bruni: Besta lýsingin á því hvað fjölvídd merkir er að finna í sálinni. Hlutverk samstillingar líkama okkar, huga, hjarta og innsæis á sér síendurteknar birtingarmyndir í daglegu lífi. En þegar við eru altekin af eðlishvötum okkar og rökfestu, rofnar sambandið við hjarta okkar og anda og við ánetjumst hvað eftir annað í skólaðrar tilveru. Þegar við látum ljós sálar okkar skína, leifum við forlögunum að skapa hið óútreiknanlega. Það gefur okkur möguleikann á að vera andlegar verur sem búa yfir mannlegri reynslu, og þá hvernig - og hvers vegna við veljum að umbreyta okkar félagslega veruleika. Sálin tengir okkur við alheiminn og möguleikann á að uppfylla markmið okkar.

Breytt markmið: Reynsla okkar endurspeglar það sem við veljum, er tjáning tilveru okkar og skuldbindur um leið ferð okkar að sannleikanum. Það sem við ætlum með lífi okkar helgar tilganginn. Við fullnýtum möguleikana þegar við sleppum öllu sem ekki lengur þjónar tilgangi okkar eða samfélagi. Það er í þesskonar tiltekt sem möguleikar okkar fæðast. Á hverjum degi eigum við möguleikann á að nýta krafta okkar í að verða farvegur alheimsins. Þetta gerir okkur mögulegt að viðhalda þeirri gullgerðalist sem býr í anda okkar, hjarta, huga og líkama. Við upplifum tilgang okkar þegar við tengjumst uppsprettu alls þess sem er og mun alltaf verða.

Í algleymi: Þegar við þóknumst félagslegum veruleika verðum við að öllu því sem við erum ekki. Við sækjumst eftir ávinningi með samanburði við aðra, vegna þess að við trúum ekki á okkur sjálf. Tilvera okkar er eftir sem áður hinn óendanlegi möguleiki eilífrar orku, sem fer fram úr okkar björtustu vonum og ímyndunarafli. Við erum og munum alltaf verða farvegur alheimsins í okkar eigin tilveru. Innan hvers og eins okkar er lykillinn að leyndardómnum. Við eigum möguleika á að byggja líf okkar á eigin reynslu. Svo þegar við uppskerum höfum við búið til eitthvað einstakt, sem endurspeglar tilgang okkar, sameinar alheiminn við fyrirætlanir okkar og sálin verður að grundvelli tilverunnar.

Endursögn á Source Of The Soul / eftir Iam Saums, sem er tónlistamaður, ljóðskáld og smásagnahöfundur.


Hvað er líkt með krókódíl?

Allt frá því á unglingsárunum, skömmu eftir að einfaldleiki bernskunnar hvarf og himininn varð pastelblár, hefur þessi spurning um krókódílinn oft komið upp í hugann. Það var Óli Ara félagi minn í næsta húsi, tveimur árum yngri en ég, sem lagði þessa spurningu fyrir mig einn daginn í sumarvinnu við byggingar, þar sem við höfðum þann starfa að naglhreinsa og skafa spýtur sólbjarta daga í hlýrri sunnan golu. Mér datt augnablik í hug, af því ég átti að vera eldri og lífsreyndari, að það hlyti að vanta hluta spurningarinnar til þess að hún gæti talist rökrétt, en Óli Guð svarði fyrir að spurningin væri villandi og svarið ætti að vera einfalt enda gæti bæði spurningin og svarið allt eins verið komið frá heimspekideild háskólans. Þessi spurningin ætti því ekki að vera þvælinn, hvorki fyrir börn né fyrir þá sem vita að tveir plús tveir þurfa ekki að vera fjórir frekar en þeim sýnist. Í mörg ár hefði ég viljað eigna speki svarsins þeim stofnunum samfélagsins sem boða þann sannleika sem á að vera til að auka fólki visku og hvetja það til að leita þess óþekkta með síaukinni sérhæfingu, þar til það veit svo mikið um lítið að það getur talist sérfræðingar fimm háskólagráða. Núna þegar tugir ævinnar eru orðnir fimm er svarið við spurningunni um krókódílinn sífellt að verða skírara enda hafa vísbendingarnar borist að úr ýmsum óvæntum áttum í gegnum tíðina.

Sá maður sem hafði lengst af mest áhrif á mína lífsýn var nafni minn og afi, Magnús bóndi og almúgamaður á sinni tíð. Þegar hann heimsótti mig einn sunnudags eftirmiðdag, háaldraður, um langan veg til að sjá húsið sem ég byggði og fjölskyldan mín var þá ný flutt í gaf hann mér púsl í gátuna um krókódílinn. Lengi vel voru samræður okkar samhengislaus þvæla þennan sunnudags eftirmiðdag, þangað til hann allt í einu bar höndina upp að eyranu og sagði; aaah ég gleymdi að kveikja á heyrnartækinu, ég fór nefnilega í messu í morgunn og slökkti á heyrnartækinu því mér leiðist svo talið í prestunum". Afi minn hafði verið kirkjurækinn maður allt sitt líf enda amma fyrrverandi prestsfrú sem missti eiginmanninn, unga prestinn frá tveim litlum dætrum. Lengst af var amma svo kirkjuorganisti í sinni sókn og hann afi minn, seinni maðurinn, meðhjálpari í sömu kirkju. Ég velti því vöngum yfir því árum saman að hann skildi slökkva á heyrnartækinu til að vera laus við að heyra prestana flytja boðskapinn sem ég hélt að ætti að verða okkur kærari sannleikur eftir því sem á ævina líður.?

Ein er sú kona sem hefur verið til frá því ég man fyrst eftir mér og ég hef getað talað við um mín hjartans mál í gegnum alla tíðina. Það er föðursystir mín sem nú er kominn á níunda tug ævinnar. Föðursystir mín hefur, eins og allir, sína sérstöku lífsreynslu, hún hefur auk þess að missa faðir sinn sem barn, lifað fjóra af nýju sonum auk eiginmanns, sem fóru í blóma lífsins. Fyrir þremur árum síðan missti hún tvo syni sem voru á mínum aldri, með viku millibili. Þessi föðursystir mín ræddi það einu sinni við mig fyrir áratugum síðan, þegar ég var enn á táningsaldri, að bróðir hennar, faðir minn, hefði gott af því að fara í kirkju til að sefa sorgina sem fylgdi þeim missi þegar fimm barna móðir og eiginkona hverfur úr blóma lífsins, en þá var pabbi heitinn bitur út í sinn Guð. Fyrir síðustu jól kom út bókin Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson, bók sem hefur að geima frásagnir miðla þar sem framliðnir lýsa andláti sínu og endurfundum í framlífinu. Flestar frásagnirnar hafa að geyma fagra endurfundi við fjölskyldu og vini í hinu fagra "Sumarlandi". Það þurfti því ekki að koma mér á óvart að föðursystir mín, prestsdóttirin, hafi séð kirkjuna sem hellubjarg á erfiðum tíma. En núna, eftir að hafa hvatt mig til að lesa bókina, talar Dúna frænka um skilningsleysi prestanna á andans málum, hvernig kenning þeirra byrgir sýn á Sumarlandið og flækir það eina sem skiptir máli, kærleikann.

Þá eru ótaldar allar þær upplýsingar sem berast að í gegnum fjölmiðla og gefa púsl í svarið um krókódílinn. Þar á ég ekki við þá fjölmiðla sem oftast eru skilgreindir sem slíkir, heldur óritskoðaða visku sem á sér líf í netheimum en er umsviflaust útilokuð sem samsæriskenningar og bábiljur þar sem menn telja sig fara með vísindalegar staðreyndir. Fyrir stuttu lenti ég inn á spjallþráð þar sem hún óskilgreind Sólrún gaf krókódílnum tóninn og sagði m.a.; "Ég held að skynsemi sé okkur meðfædd og misvel útilátin eins og annað frá náttúrunnar hendi. En það getur alveg verið að það sé hægt að rækta hana úr mannskepnunni með einhverju móti. Íslenski sauðfjár stofninn hefur þótt sérstakur vegna litadýrðar sinnar, grátt mórautt, svart, botnótt, flekkótt og allskonar. Það komu tilskipanir AÐ OFAN að það skyldu allar kindur vera hvítar, ekki væri fínt að vera með mislitt fé. Allir fóru að keppast við að rækta hvítt og settu á allskonar horgemlinga, bara af því að þeir voru hvítir, sem auðvitað fór ekkert vel með stofninn til lengdar og viti menn einn daginn komst í tísku að hafa ullina í sem flestum litum..markaðurinn vildi það.... Afi minn var skynsamur maður og hélt mikið upp á mórauða túnrollu sem hann átti og var svo slungin að koma sér í túnið að honum tókst aldrei að girða fyrir hana. Hún fann alltaf upp mótleik...." "Þórbergur Þórðarson var ekki hrifinn af menntakerfinu á sínum skóladögum og varla hefur það batnað síðan þá, þegar að honum hafði loksins tekist það sem hann hafði heitast þráð heima í Suðursveit að komast yfir vötnin ströng til Reykjavikur til að njóta æðri menntunar í Kennaraskólanum þá var honum ekki um sel þegar að verið var að kenna þau vísindi þar að kettir hefðu fjórar lappir og rófu. Fannst honum víst til lítils vera barist og átti von á einhverjum meira framandi fróðleik. Hann vildi líka meina að skólar hefðu upphaflega aðeins verið ætlaðir yfirstéttar börnum en þegar að sauðsvartur almúginn fór að læða löppinni þar inn milli stafs og hurðar "ÞÁ FÓRU ÞEIR AÐ KENNA LATÍNU " mál sem var í raun útdautt til að sporna við of mikilli menntun almúgans. Þessi aðferðafræði virðist hafa haldist nokkuð vel hingað til."

Svo eru það öll púslin í myndina um krókódílinn sem vinur minn og frændi, hann Helgi, sem átti því láni að fagna að sleppa við staðreyndastagl um fjórar loppur kattarins og eina rófu 14 ára gamall og hafa það gjörvulega framkomu að vera ráðinn á togara. Þó svo að hann hafi búið hinu megin á hnettinum á meðal andfætlinga s.l. þrjá áratugi hefur hafsjór af upplýsingum sem ekki tilheyra hinni hefðbundnu heimsmynd latínusamfélagsins borist frá honum yfir höfin á alheimsnetinu. Mér hefur oft dottið í hug að sú viska og gjörvuleiki sem hefur veitt honum velfarnað í lífinu komi beint frá hjartanu og jafnvel eitthvað frá ömmu hans sem vissi lengra nefið náði. Ég hef stundum haft það á orði við systkini mín að mitt mesta ólán í lífinu séu þau ár sem ég hafði hvorki manndóm né bar gæfu til að hlíða hjartanu og tiltek þá sérstaklega skólaárin. Allan þann tíma fannst mér margt það sem var á borð borðið vera á skjön við meðfædda skinsemina, en lét mig hafa það því þeir sem bæru spekina á borð hlytu að vita betur hvað mér væri fyrir bestu en ég sjálfur. Systkini mín fjögur taka þessum yfirlýsingum elsta bróðir af stólískri ró. Bróðir minn sem er næstur í aldri er sá sem veit hvað ég meina og sýnir skilning þess sem hefur afrekað svipaða skólagöngu. Systur mínar tvær taka þessu með nærgætnum umvöndunum, þó hver á sinn hátt. Báðar hafa þær afrekað sýnar háskólagráðu þó leiðir þeirra að þeim hafi verið ólíkar. Sú eldri varð stúdent um fertugt og kláraði svo háskólanám með hraði og glans, þrátt fyrir lesblindu og alla þá annmarka sem uppeldi Sumarhúsanna fylgdu, en á föður okkar heitin getur hún varla minnst án þess að minnast á Bjart í Sumarhúsum í framhjáhlaupi. Sú yngri glansaði ung að sínum gráðum og finnst mér örla á meiri efa hjá henni um réttmæti þess að kenna skólagöngu minni um allar mínar ófarir. Yngsti bróðirinn átti það til að þræta um eyðileggingarmátt skólagöngunnar og jafnvel efast um að spurningin um krókódílinn ætti rétt á sér, enda sótti hann gráðu sem kennd er við master og verkfræði. Samt fór það svo að sannleikurinn fannst ekki í master og meira en milljón á mánuði, nú er hann Buddha munkur sem ætlar að skilja lífið ásamt því fyrra og því sem á eftir kemur. Ég held að krókódíllinn heiti karma á Buddhisku og upp á síðkastið hef ég séð að hann er farinn að greina krókódílinn.

En hvað með það, fyrrum togarajaxlinn hann Helgi sendi mér viskuna sem lét svarið um hvað sé líkt með krókódíl standa ljóslifandi fyrir mínum hugskotssjónum, sem e-mail í pínulitlum link á youtube. Þó maður velti fyrir sér spurningu lífsins mestan hluta ævinnar þá þarf það ekki að vera svo að svarið sé flókið, miklu frekar að það hafi alltaf verið fyrir framan nefið og að vitneskjan hafi verið meðfædd áður en barnsálin lagði af stað út í hinn stóra heim. Það mætti því ætla að óþarfi væri að eiða heilli ævi, í að komast að því sem lá ljóst fyrir barninu, um það eina sem skiptir máli, kærleikann eins og Dúna frænka segir. En hvernig er svo farið að því að flækja það eina sem skiptir máli í því sem næst heilan mannsaldur?

Ímyndum okkur að skrifuð hafi verið bók þar sem það er útskýrt er fyrir blessaðri barnsálinni í þykku og miklu ritverki andans orða, svipuðu og Biblíunni, hvernig á að læra að hjóla. Þar sem sagt er frá eðli hjólsins, hvernig jafnvægi þess virkar, hvernig á að bera sig að og í hvaða átt er hægt að fara á hjólinu. Ímyndum okkur að fólk fái þessa bók áður en það prufar að hjólað og það á að þekkja öll atriðin um það hvernig á að fara að því að hjóla þegar þar að kemur, en fyrst verði það að leggja þetta allt á minnið og ná að svara öllum spurningum með tilteknum árangri á 40 mínútna prófi áður en það fær að prufa hjólið. Gerum jafnframt ráð fyrir að þeir sem skrifuðu þykku kennslubókina og semja prófið um það hvernig á að hjóla, vilja helst ekki að við hjólum því þá gæti verið að við hjóluðum í aðra átt en þau, en vegna þess að við sjáum vísbendingar um hversu hjól eru sniðug allt í kringum okkur þá ákváðu þau að skrifa hjólreyða reglugerðarbókina svo að það væru þau sem settu þó allavega reglurnar. Með því að skrifa reglurnar um það hvernig fólk lærir að hjóla verða þau við stjórn allra okkar hjólreiðatúra, í hvaða átt við förum, hversu hratt osfv... Þannig verða allar upplýsingar um það hvernig skuli hjóla meira og minna blandaðar hagsmunum þeirra sem vildi ekki að við lærðum að hjóla, þar sem við verðum að fylgja öllum reglunum í bókinni til enda, við fengum náðsamlegast leifi til að læra að hjóla og við verðum að óska eftir endurnýjuðu leyfi í hvert skipti sem ætlum að fara út að hjóla. Þú kannt að hafa allskonar athugasemdir við þessa reglugerða bók en þú ert ekki marktækur vegna þess að þú hefur ekki löggilt leyfi til hjólreiða.

Ef tekið er mið af fagnaðarerindi Krists þá þurfti hann hvorki löggilt leifi eða bók til að hjóla, hann einfaldlega hjólaði. Í stað þess að skrifa þykka leiðbeiningabók um sínar hjólreyðar reyndi hann að fá fólk til að hjóla, en þeir sem skrifuðu reglugerðabókina um hjólreyðar hafa sett inn allskonar takmarkanir og útúrdúra sem gagnast einungis hagsmunum höfundanna. Af hverju tóku þau sem vilja stjórna kenningu Krists og brengluðu henni? Það var vegna þess að kenning hans var svo hnitmiðuð og óhrekjanleg svo þau urðu að taka fagnaðarerindið og flækja það með því að setja í bók þar sem bætt var inn mótsögnum til að villa um fyrir saklausum lesendanum. Flestir kannast við að í ritum nýja-testamentisins má finna "elskaðu óvini þína, dæmdu ekki, sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum" osfv.. Svo eru þar ýmsar mótsagnir sem rugla lesendur í ríminu og hafa verið notaðar til að ala krókódílinn. "Sá sem ekki er með mér er á móti mér" hvernig á þetta samhljóm með "elskaðu óvini þína"? Myndir þú í nafni kærleikans senda barnið þitt í fyrsta hjólreiðaferðina niður brekku þar sem það næði nægilegri ferð til að halda jafnvægi með þá leiðsögn í farteskinu að taka í handbremsuna fyrir framhjólið þegar það vildi stoppa? "Engin kemur til föðurins nema í gegnum mig" hentar höfundinum sérdeilis vel. Það eru víða setningar Nýja Testamentinu sem er erfitt að ímynda sér að Kristur hafi sagt, því þær eru í mótsögn við boðskapinn sjálfan, það sama á við þegar kemur að túlkunum Postulasögunnar og bréfa Páls. Gamla testamentið, sem er mikil lesning svo sígild að það má auðveldlega finna henni stað í nútímanum sem kvikmyndahandrit af Rambó skrifuðu fyrir eigendur og kostara Al Qaeda.

Þannig má endurskrifa fagnaðarboðskap með því að lauma inn setningum sem eru í mótsögn við einfaldan boðskap í þeim tilgangi að lesandinn þurfi heila æfi til að ná merkingunni sem lá ljós fyrir áður en hann lærði að lesa. Þess vegna er allt gert svo við trúum að við getum ekki hjólað nema að við hjólum með hjálp hjólreyðareglugerðarbókarinnar sem skrifuð er af þeim sem vilja ekki að við hjólum og höldum jafnvægi án hjálpardekkja. Eftir að íbúar þessa heims sáu í gegnum ritsnilld hinna ýmsu krossfara fyrri tíma kom upplýsingin til skjalanna, hin mikla vísindalega menntun sem upphaflega var kennd á latínu. Eftir áralangt latínustagl skildi ekki nokkur lifandi sála þann sem fór með sannleikann, það var þá sem þau fundu upp sérfræðinginn sem veit svo mikið um lítið að engin er marktækur nema vera sérfræðingur með helst fimm háskólagráður.

Það er alltaf gott að fá staðfestingu á alheimsnetinu og youtube að spurningunni um krókódílinn hefur sama svarið og þegar við Óli stóðum hlýrri sunnangolunni undir bláum himninum skafandi spýtur, minnugir kærleika bernskunnar þar sem tveir plús tveir þurftu ekki að vera fjórir frekar en okkur sýndist, vitandi upp á hár að það sem er líkt með krókódíl, er að hann getur hvorki hjólað.


Draumheimar.

Heimurinn sem við upplifum þegar við eru vakandi og heimurinn sem við upplifum í draumi svefns eru mög svipaðir, báðir eru upplifun okkar innra sjálfs.  Ef við viljum halda því fram að draumaheimurinn sé óraunverulegur þá verðum við jafnframt að halda því fram að heimurinn í vöku sé óraunverulegur, og ef við viljum halda því fram að vökuheimurinn sé sá raunverulegi, þá verðum við jafnframt að halda því fram að draumaheimurinn sé raunverulegur. 

Einu munurinn á þessum tveimur tilverustigum er að draumurinn verðir til vegna næmni óþekktra stöðva hugans á meðan vökuheimurinn verður til í okkar stóra heildar huga.  Draumheimurinn varir einungis jafnlengi og draumurinn, að sama skapi endist vökuheimurinn einungis jafnlengi og vökuástandið varir.  Þegar við deyjum hættir vökuheimurinn að vera næmur og heimurinn sem við höfum upplifað hverfur.   Heimurinn sem önnur skynjun mun samt halda áfram að vera til, en okkar persónulegi heimur mun hverfa eins óafturkallanlega og draumur í svefni næturinnar. 

Transform your life / Kelsang-bhudda bls.247.

 


Lífið er eins og bolli af kaffi.

Hópur fyrrum nemenda, sem hafði notið mikils starfsframa, voru komin saman til að heimsækja sinn gamla háskólakennara.  Samræðurnar snérust fljótlega upp í kvartanir vegna vandamála og álags sem áríðandi lífi þeirra og starfi útheimti.

Eftir að hafa boðið gestum sínum kaffi, fór prófessorinn í eldhúsið og kom til baka með stóra könnu fulla af kaffi og samsafn bolla; úr postulíni, plast, gleri, kristal; suma hefðbundna, suma rándýra, suma stórkostlega.  Hann bauð gestum sínu að gjöra svo vel og bera sig eftir kaffinu.

Eftir að allir höfðu orðið sér út um kaffi, sagði prófessorinn; Þið tókuð kannski ekki eftir því að fallegu dýru bollarnir gengu út en þeir venjulegu og ódýru voru látnir vera.  Það er eðlilegt að þið sækist aðeins eftir því besta fyrir ykkur sjálf, en í því liggur samt sem áður rót vandmála ykkar og álags.

Verið því viss um að bollinn bætir ekki gæði kaffisins.  Í flestum tilfellum gerir bollinn kaffið aðeins dýrara og í sumum tilfellum felur hann það sem við drekkum.  Það sem öll ykkar langaði í upphaflega var gott kaffi, en ekki flottur bolli.

Þið ómeðvitað sóttust eftir besta bollanum...... Og þar á eftir fóruð þið að gefa bolla hvers annars auga til að sjá hver hefði náð í þann flottasta.  Íhugið þetta.......  Lífið er kaffið; starfið, peningarnir og þjóðfélagsstaðan eru bollarnir.  Þeir eru bara verkfæri til að innihalda og gerð bollans sem við höfum skilgreinir ekki né breytir gæðum innihaldsins.

Stundum, með því að einblína aðeins á bollann, gleymum við að njóta kaffisins.  Njótum kaffisins ekki bollanna!  Ánægðasta fólkið hefur ekki það besta af öllu.  Það bara gerir það besta úr öllu.  Lifir í einfaldleika.  Talar vinsamlega.  Er umhyggjusamt og á nóg af kærleika.

Life is like a cup of coffee.


Sannir draumar.

Heimurinn sem við upplifum í vöku og draumi, þ.m.t. svefni eru jafn sannur, í báðum tilfellum upplifum við líf okkar.  Munurinn á þessum tveimur tilverustigum er að upplifanirnar verða til vegna næmni mismunandi stöðva hugans, okkar innra sjálfs.  Draumaheimurinn varir einungis jafnlengi og draumurinn á meðan vökuheimurinn á sér síendurtekið framhald í vökuástandi.  Vökuheimurinn missir samt sem áður næmi sitt, á líkan hátt og draumaheimurinn, þegar við deyjum þá verður hann jafn óafturkallanlegur og draumar næturinnar.

Tilverustig draums og vöku ættu því að vera viðurkennd sem jafn sönn.  Það sem við upplifum í vöku er í raun það sem hugur okkar hefur séð fyrir hvort sem það er í eigin dagdraumum, svefni, eða það sem oft er líklegast, þeirri innrætingu sem huga okkar er gefin af umhverfinu, t.d. uppeldi, skóla og fjölmiðlum.  Það er því mikilvægt að gera sér grein fyrir að innræting umhverfisins gengur að miklu leiti út á að hafa áhyggjur af framtíðinni, sektarkennd yfir fortíðinni en gleyma nútíðinni. Draumarnir gefa okkur aftur færi á að sjá okkur sjálf eins og við erum núna og leitast við að upplifa það í hinum efnislega vökuheimi.

Okkur hættir til að trúa því að utanaðkomandi innræting sé hinn raunverulegi heimur og heimurinn sé því utan okkar sjálfra.  Sem börn höfum við upplifað að draumurinn er raunveruleikinn vegna þess að hann býr innra með okkur sjálfum.  Barnið hefur verið á tunglinu þegar það hefur dreymt það og veit hvernig þar er í hjarta sínu, það er ekki fyrr en seinna að það fer að trúa á tálsýnina sem er há himninum og efast um eigin upplifun.  Barnið trúir t.d. ekki á karlinn í tunglinu vegna þess að því hefur verð innrætt að þar sé hann, barnið veit að karlinn býr í tunglinu þar til því er sagt að vera ekki að þessu bulli, þannig er ímyndunarafl draumanna á að engu gert og það sem á eftir kemur er kallað innræting til upplýsingar. 

Draumurinn er því sá hluti sannleikans sem við þurfum mest á að halda til að þekkja okkur sjálf og til að upplifa okkur sem heilbrigðar manneskjur í vöku þessa heims. Tálsýnin er einungis utan okkar sjálfs í vökuheiminum þegar við trúum ekki á eigin drauma.  Draumurinn er því svipaður ást við fyrstu sín, hjartað hefur gert sér mynd af því hvernig hún lítur út og þegar manneskjan birtist veistu að þetta er hún, það er ekki fyrr en seinna sem það kemur í ljós hvort er um tálsýn að ræða.   Mynd hjartans, sú mynd sem þú hefur búið til innra með þér er eftir sem áður jafn sönn.

Jesú sagði;  Lukas. 17.20-21. "Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri.  Ekki munu menn segja:  Sjá, þar er það, eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður."


Leyndardómur alheimsins.

Þegar þú stendur við tákn óendanleikans. Mun allt sem þú vilt lúta lögmáli alheimsins, sækistu eftir breytingum þá mun þér verða gefinn lykilinn. Og með þessari vitneskju kemur ábyrgðin á því að útdeila henni, þér verður sýndur vegurinn.

Þetta er mjög einfalt. Í alheiminum er regla þar sem hreyfing himintunglanna og náttúrunnar fara saman við mannshugann. Huga sem er í sínu rétta ástandi þegar hann er í samhljómi við alheiminn, og svoleiðis hugur er tímalaus.

Líf þitt er tjáning huga þíns. Þú ert skapari þíns alheims, sem maður ertu frjáls til að vera í hverju því hugarástandi sem þú óskar í gegnum hugsanir þínar og orð. Það er mikið vald í því fólgið og hvort því fylgir blessun eða bölvun er allt undir þér komið.

Gæði lífs þíns er afsprengi gæða hugsana þinna, hugleiddu það. Hugsanir eru undanfari aðgerða, aðgættu því hvað þú hugsar. Taktu eftir sjálfsvorkunnunni, öfundinni, græðginni, hræðslunni og öllum þeim viðhorfum sem valda þér sársauka og óþægindum.

Gerðu þér grein fyrir að það er eitt sem þú hefur algjört sjálfsforæði yfir, það er viðmót þitt. Taktu eftir hvaða áhrif það hefur á þá sem í kringum þig eru. Þá muntu sjá að sérhvert líf er tengt öllu lífi og viðmót þitt og orð valda viðbrögðunum eins og þegar steini er kastað í lygnan vatnsflöt.

Ef hugsanir þínar eru í lagi munu orð þín streyma beint frá hjartanu og skapa gárur kærleikans. Ef þú í raun villt breyta lífi þínu vinur, verðurðu að breyta hugsunum þínum. Ástæðan er mikilvægasta verkfærið, hún býr til andrúmsloft skilnings sem leiðir til væntumþykju sem er kærleikur. Veldu því orð þín af væntumþykju og sæktu fram með þeim.

Secret of the universe.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband