24.10.2015 | 21:50
Saga rúnanna
Enginn veit nákvæmlega hversu gamlar rúnir eru, orðið rún er talið vera norrænt og merkja leyndarmál eða ráðgáta.
Rúnir eru sagðar um 2000 ára gamalt letur sem rakið er til germanskra þjóða í Austur- og Mið-Evrópu. Síðar eiga þær að hafa breiðst út til Norður-Evrópu,loks til Norðurlanda, Bretlandseyja og Íslands. Þær eru af viðurkenndum fræðimönnum taldar hafa þróast út frá grískum, etrúskum og rómönsku latínu letri og jafnvel fleiri leturgerðum. Margir hafa þó orðið til þess að benda á að rúnir gætu átt sér mun eldri og víðtækari uppruna. Bent hefur verið á að furþark rúnastafrófið sem einkum er eignað germönskum þjóðum sé sláandi líkt rúnastafrófi sem þjóðflokkur Göktürk notaðist við í Mið-Asíu. Þá eru rúnirnar komnar í þá slóð sem Snorri Sturluson rekur þegar hann greinir frá goðafræðinni og því hvernig æsir fluttust til norðurlanda frá Svartahafsströndum.
Rúnir tengjast norrænni goðafræði sterkum böndum, leyndardómur þeirra birtist Óðni þegar hann hékk níu nætur stunginn síðusári á Aski Yggdrasils, án matar og drykkjar. Í 138. erindi Hávamála segir svo um sjálfsfórn Óðins: Veit ég, að ég hékk vindga meiði á nætur allar níu, geiri undaður og gefinn Óðni, sjálfur sjálfum mér, - á þeim meiði er manngi veit hvers hann af rótum renn. Hann kenndi síðan Freyju merkingu rúnanna sem í staðinn kenndi honum seið. Heimdallur færði þær síðan íbúum Miðgarðs.
Óðinn er m.a. guð visku og skáldskapar í norrænni goðafræði, galdra og spádóma og því tengjast rúnirnar þessum þáttum sterkum böndum. Rúnir eru oft tengdar forlaganornunum Urður, Verðandi og Skuld sem spunna mönnunum örlög þar sem þeir höfðu mismikla gæfu til að bera.
Tacitus segir svo frá í Germaníu 98 e. Kr.: Þeir sníða grein af aldintré og hluta í smábúta, er þeir aðgreina með mismunandi merkjum; strá svo bútunum án greinarmunar og af handahófi á hvítt klæði. Að því búnu kemur prestur þjóðflokksins, ef spáfréttin er fyrir alþjóðar hönd en annars heimilisfaðirinn, lítur hann upp til himins og ákallar guðina, en tekur því næst hvern bút þrisvar upp. Þýðir hann svo hlutkestið af merkjum þeim er á bútana voru sett. Þó fræðimenn leggi mikið upp úr Gemaníu texta Tactusar bendir margt til að rúnir séu komnar mun lengra að, jafnvel frá horfnum heimi sem þá og nú er óþekktur. Í norrænni goðafræði er það Heimdallur sem sagður er hafa kennt mönnum vísdóm rúnanna, en Heimdallur var sonur Ása fæddur af níu dætrum sjávarguðsins Ægis í Jötunheimi.
Rúnakerfin, sem oftast er getið eru tvö og kölluð FURÞARK eftir hljóðan fyrstu rúnanna í kerfinu. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og er sagt í notkunn frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt kerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðallega fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi. Rúnakerfin skiptast í þrjár ættir; Freys-ætt, Heimdalls-ætt og Týs-ætt. Á víkingaöld var 16 rúna kerfið notað og fluttist það til Íslands en hafði auk þess verið notað á Norðurlöndum og Bretlandseyjum og hefur fundiat á Grænlandi og jafnvel Ameríku. Víkingarnir töldu rúnirnar vera máttugar og sögðu að þær hefðu bæði galdramátt og lækningamátt. Sumar rúnir báru töfranöfn sem nú eru orðin að kvenmannsnöfnum svo sem hugrún sem var notuð til að efla vit og sigrún sem var notuð til að vinna sigur í orrustu. Rúnir voru oft samsettar úr fleiri en einni rún til að auka mátt þeirra og nefndust þá galdrastafir.
Almennir textar í rúnaletri voru yfirleitt ekki mjög langir, rúnaletrið var einfalt og sumar þeirra merkja meira en eitt hljóð og geta því táknað marga bókstafi. Íslendingasögurnar hafa að geyma fróðleik um rúnir sem vitnað er í um víða veröld. Egilsaga greinir frá því þegar Egill Skalla-Grímsson ristir rúnir í drykkjarhorn til að eyðileggja eitur sem honum er byrlað í öli og kvað þá vísu sem hefst á þessum orðum Ristum rún á horni, rjóðum spjöll í dreyra Þegar hann hefur farið með kvæðið til enda springur hornið og gumsið fer til spillis og bjargar þar með Agli frá þessum vélabrögðum. Eins segir sagan frá því þegar bóndadóttir ein lá fársjúk eftir að henni höfðu verið ristar meinrúnir. Með rúnakunnáttu sinni læknaði Egill stúlkuna þegar hann afmáir meinrúnirnar og ristir nýjar rúnir á rúmstokk hennar og lét þá þessi varnarorð fylgja; Skalat maður rúnir rista, nema ráða vel kunni. Egill Skallagrímsson, er einn þekktasti víkingur allra tíma, illvígur og óvæginn en samtímist eitt mesta skáld þess tíma auk þess að hafa þekkingu á mætti rúnanna sem veitti honum margvíslega yfirburði.
Íslenskar rúnaristur hafa aðallega fundist grafnar á legsteina frá 1300-1700, eftir að þeir fóru að tíðkast. Þó má telja líklegt að frumrit íslendingasagnanna hafi verið skráð með rúnum í skrám sem Snorri Sturluson ofl. varðveittu hundruðum ára síðar með því að láta skrifa þær upp með latnesku letri. Þó svo rúnir séu taldar hafa verið hvað lengst í almennri notkun á Íslandi er fátt sem finnst því til staðfestu annað en legsteinar. Ástæðan gæti hugsanlega verið sú að kirkjan taldi þær til galdraiðkana. Skipunarbréf erkibiskupsins í Niðarósi 1334, 1342 og 1346 (en biskuparnir á Íslandi heyrðu undir Niðarós á þeim tíma) fyrirbauð mönnum að fara með lyf, galdra og hindurvitni að viðlögðu guðs banni. Kirkjan virðist þó ekki hafa barist af alefli gegn rúnum fyrr en eftir siðaskiptin. Telja má að Kýraugastaðasamþykkt Odds biskups Einarssonar árið 1592 hafi markað tímamót, en þar eru galdrar, rúnir og særingar lögð að jöfnu.
Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625 með aftöku Jóns Rögnvaldssonar, en fáein rúnablöð urðu honum að falli. Þetta gerist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu hófust og voru þær þá þar í rénun. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir rúnafróða menn því að þekking þeirra var lögð að jöfnu við galdra, djöfuldóm og trúvillu sem náði hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi. Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir rúnagaldur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur árið 1625 í Svarfaðardal við Eyjafjörð. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, en slíkt bauð heim galdragrun og djöfullegum dauða í eldi. Það sérstaka við íslensku galdrabrennurnar er að þar voru karlmenn aðallega bálinu að bráð.
Á síðustu öld spann Þýskaland nasismans sinn örlagavef með myrkum öflum, þar sem rúnir komu við sögu. Hinn kynngimagnaði hakakross var merki nasistaflokksins og þriðja ríkis Hitlers. Hakakrossinn er víða til í táknfræði og er þar kenndur við sólarhjólið. Það voru krosslagðar sólrúnir sem mynduðu hinn illræmda hakakross og tvær þeirra hlið við hlið voru notaðar sem tákn ss sveitanna. En sól-rúnin stendur m.a.fyrir þrumufleyginn, sem var ginnhelgasta tákn Þórsdýrkenda. Gunnfánar, skyldir og jafnvel skriðdrekar voru merktir fornum rúnum. Ástæðan fyrir því að nasistar völdu þessi tákn var ekki einvörðungu vegna trúar þeirra á að þær væru germanskar að uppruna, heldur ekki síður vegna þess að hugmyndfræðingar þeirra trúðu á töframátt rúnanna. Sennilega hefur nasismanum tekist að koma meira óorði á rúnirnar og vísdóm þeirra en galdrabrennur fyrri alda.
Nú á tímum eru rúnir einkum notaðar til gamans s.s.til tattooskreytinga og spádóma. Líkt og í bollalestri og tarrotspilum þá eru þær taldar hafa forspárgildi um örlög fólks. Í eðli sínu fela spádómar í sér ákveðna forlagagatrú en það á þó ekki alltaf við um rúnaspádóma. Vísdómur rúnanna getur fengið fólk til að hugleiða sitt eðli og umhverfi. Rúnirnar gefa sjaldan skýr svör um framtíðina en leiðbeina hvernig hægt er að hafa áhrif á hana. Flestir vita að þeir sjálfir hafa mest áhrif á það hvernig eigið líf þróast. Það má samt segja að skapanornirnar spinna örlagavefinn sé þeim látin tiltrúin í té og þar sé hver sinnar gæfu smiður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.