5.9.2015 | 22:32
Þurs
Þurs – Thusiaz; ógn, eyðilegging, uppgjör. Hverfult afl sem rífur niður. Rúnin Þurs er rún Mjölnis, hamars Þórs og stendur fyrir óútreiknanlegri orku stríðandi afla, í baráttu jötna við Þór í þrumuvagninum. Þursið hefur sterka skírskotun til samtímans þar sem ráðandi öfl telja að best sé að tryggja friðinn með því að ráðast gegn hinu illa. Þegar þannig háttar er rétt að hinkra við, skoða fortíðina og draga ályktanir af því hvað sé raunverulega hið illa. Munurinn á Þór og þursum, frændum sjónhverfinga goðsins Loka, þarf ekki að vera auðsjáanlegur. Stundum er Þurs líkt við hvassan þyrni, fagran en illskeyttan sem enginn mannlegur máttur fær staðist.
Völuspá Þursins; þegar þú verður að berjast fyrir friði, finndu þá frið í baráttunni. Ef sjúkdómar, slys eða aðrar ófarir hafa orðið á vegi þínum bendir rún Þursins á að þú hafir verk að vinna í sjálfum þér, hjá því verði ekki komist. Því náttúruöflin og aðrir kraftar sem þú færð ekki við ráðið eru þér óhagstæðir. Skoðaðu fortíðina; gleðina, sigrana og sorgirnar, allt sem hefur stuðlað að því að þú ert hingað kominn. Besta andlega ástandið til að vinna úr stöðunni er áhugi og velvilji, sem munu gagnast við að halda vitundinni vakandi. Allt frekar en reiði eða ótti, sem munu auka hættuna á að þú þurfir að berjast við Þursið síðar af öllum lífs og sálar kröftum .
Loka annmarkar Þursins; gættu þín á lygum, svikum og hatri, án þess þó fyllast takmarkalausri tortryggni. Farðu með gát gagnvart fólki sem þú hefur ástæðu til að ætla illgjarnt og meinfýsið.
Rúnin Þurs hljómar bókstafinn Þ, frumefni eldur, pólun karl, steinn safír, rún Þórs.
Það kann eg hið þriðja
ef mér verður þörf mikil
hafts við mína heiftmögu
eggjar eg deyfi minna andskota
bíta-t þeim vopn né velir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.