Uxi

Úruz

Uxi – Uruz; karlmennska, kraftur, þolinmæði, tækifæri, nýtt upphaf. Þrautseigja lífsins og óþrjótandi útsjónarsemi felst í rún Uxans. Hún er birtingarmynd endurnýjaðs þreks, líkt og nautshúðin sem stöðugt endurnýjar slitstyrk sinn. Þannig verndar orka rúnarinnar sálina fyrir sárum með sjálfsheilandi orku, heldur aftur af hverskonar sjúkdómum og illum áformum. Snýr afvegaleiddum áformum aftur til krafts og heilbrigðis, í þá mynd sem þau voru þegar þau fengu lögun og líf í tómarúmi Ginnungagaps. Uxinn er því áunnið vald mótað af sjálfi sem vill breytingar til hins betra.

Völuspá Uxans; þessi rún bendir til þess að nýtt skeið sé að hefjast í lífi þínu. Þú er heilsuhraustur, sterkur, þrautseigur, þolinmóður og kynþokkafullur. Nú er tækifæri til til að breyta sjálfum sér, lagaðu þig að kröfum þessa skapandi tíma. Lífsreglur eru bundnar þessari rún sem gera kröfu um auðmýkt og lítillæti, því til þess að geta stjórnað þarftu fyrst að kunna að þjóna. Stefndu fram á við, skref fyrir skref. Þær áætlanir sem þú hrindir í framkvæmd munu vaxa og dafna, óplægður akur mun gefa nýja uppskeru. Styrkur þinn, þrautseigja og þolinmæði vinna með þér. Hugsaðu vel um heilsuna.

Loka annmarkar Uxa; forðastu tuddaskap, losta, grimmd og frekju. Láttu ekki hroka og fáfræði verða þér fjötur um fót.

Rúnin Uxi hljómar stafina U-Ú, frumefni jörð, pólun karl, steinn smaragður, rún Þórs.

Ósnjallur maður

hyggst munu ey lifa

ef hann við víg varast

En elli gefur

honum engi frið

þótt honum geirar gefi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband