23.5.2010 | 07:58
Trú og trúarbrögð.
Það getur verið vandkvæðum bundið að staðsetja sína trú. Á tímabili var ég fráhverfur trúarbrögðm og taldi mig jafnframt trúlausan. þegar svo var komið jafngilti það vonleysi, djúpt sokknu í alkahólisma. Lengi eftir að ég hafði kynnst AA þvældist þrjóskan við að viðurkenna handleiðslu Guðs fyrir raunverulegum árangri. Fyrstu sex árin var gangan erfið með reglulegu niðurbroti. "Við fórum að trúa, að æðri máttur gæti gert okkur heilbrigð að nýju" ; átti ekki við mig. Staðfesta trúleysis míns var álíka rökföst og bókstafstrú. Þegar óttinn og vonleysið var orðið þrúgandi laust niður hugsuninni, hverju hef ég að tapa þó svo ég trúi, hverjum þarf ég að gera reikningskili?
Trúarbrögð og trú eru ekki það sama. Í trúarbrögðunum getur einstaklingurinn staðfest og eflt sína trú sem er honum nauðsynleg til að draumar hans nái fram að ganga, í þeim má finna þau lögmál sem gilda til að honum farnist vel s.s þú skalt gera öðrum það sem þú vilt að þeir geri þér. Flest trúarbrögð byggja á reynslu og vitneskju sem safnast hefur saman í gegnum aldirnar, en trúin sjálf byggir á framsýni ímyndunaraflsins og traustinu á að hjartað hafi á réttu að standa. Sá sem er algerlega trúlaus gæti varla farið út í búð til að kaupa mjólk því hann tryði tæpast að hann fengi hana þar. Trúin er þannig samofin daglegu lífi í því smæsta.
Það má því vissulega spyrja hvort trúarbrögð séu ekki óþörf, hvort trúin á ímyndunaraflið og innsæji hjartans sé ekki nægileg fyrir hvern og einn til að komast vel af í þessum heimi? Og hvort trúarbrögðin séu ekki bara gamlar kreddur sem þvælist meira fyrir en verði til gagns?
Kannski á það sama við um trúarbrögðin og slökkviliðið . Ef það kviknar í húsi og það kemur á mettíma, með vatnsbíl, dælur og slöngur, slökkviliðsmennirnir rúllar út slöngunum og tengja þær fumlaust við slökkvibílinn setja kraftmiklar dælurnar í gang, dæla á eldinn og slökkva hann áður en hann veldur verulegu tjóni, væri það aðgerð sem hæfði stað og stund. En ef að þú sætir í mestu makindum heima í stofu við að lesa helgarblaðið og slökkviliðið kæmi og viðhefði sömu fumlausu vinnubrögðin og byrji að dæla vatni upp um alla veggi í íbúðinni þar sem væri enginn eldur, myndi það varla flokkast undir annað en algjört rugl.
Því er réttmætt að spyrja hvort trúrbrögð heimsins séu ekki tímaskekkja. Þau virðast oftar en ekki vera sett fram við aðrar aðstæður og aðra þekkingu en til er í dag, hafa þar að auki verið notuð til að ala á miklu óumburðarlindi meðal menningarheima og í flestum styrjöldum sögunnar hafa trúarbrögð átt sinn sess. Eins geta trúarbrögðin verið jafn nauðsynleg og slökkviliðið, það er gott að þekkja til þeirra þegar á þarf að halda. Þó trúarbrögð hafi verið notuð til að ala á sundurlindi og réttlæta ill verk ætti ekki að dæma þau út frá því. Öll trúarbrögð benda til hins sama; Guðs. Öll verðskulda þau sömu virðingu. Hver sem velur tiltekna trú er að velja sameiginlega aðferð tilbeiðslu og boðunar fagnaðarerindis. Þrátt fyrir það er hver einstaklingur aðeins ábyrgur fyrir sínum gerðum á þeirri vegferð, og hefur jafnframt engan rétt á að kasta af sér ábyrgð á eigin ákvörðunum í nafni trúar.
Það ætti ekki að vera ofviða ímyndunarafli neins að hefja augu yfir veraldlega misnotkun trúarbragða. Horfa í trú til Guðs, þaðan sem þú komst, og þaðan sem þú að lokum snýrð. Því trúin bjargar frá örvæntingu, trúin léttir af áhyggjum, trúin færir frið ofar öllum skilningi, trúin gefur allan styrk. Trúin færir nýjan þrótt, undursamlegan frið og æðruleysi. Með skylmingum rökfræðinnar er hægt að afsanna tilveru þess Guðs sem trúarbrögðin boða og fá niðurstöðu sem snertir ekki hjarta nokkurs manns. Þannig væri hægt á endanum að sitja uppi með spurninguna "hvað er líkt með krókódíl?" og svarið "hann getur hvorki hjólað".
Mitt öflugasta vopn er þögul bæn. -Mahatma Gandhi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.