Færsluflokkur: Rúnir

Óðal

Óðal

Óðal – Othala; uppruni, æskustöðvar, föðurland, heimili. Óðal er rún arfleiðar og sögu, þess sem krefst að við tökum ábyrgð á eigin örlögum. Óðal er hjálparhella á andlegum og líkamlegum ferðarlögum; grunngildi, andleg arfleið, reynsla og uppspretta öryggis. Framtíðin er ætíð í átt að paradís, innri-áttaviti til himnaríkis á jörðu. En það er heima sem hjartað býr. Óðal var ein þeirra rúna sem þriðja ríkið kom óorði á, í Þýskalandi nasismans var rúnin notuð sem tákn fyrir þá hugmyndafræði að þjóðernislegur uppruni leiddi til eignaréttar á landi.

Völuspá óðals; hér skilja leiðir, sem getur verið erfitt ef þú þarft að láta frá þér hluta af bakgrunni þínum, stöðu þína í samfélaginu eða starf. Hið gamla verður að víkja, sömuleiðis úrelt sambönd. Þessi rún ráðleggur auðmýkt og hugsanlega uppgjöf - svo framalega sem vitað er hvenær og hvernig tímabært er að gefast upp og að viljinn til þess sé fyrir hendi. En notfærðu þér samt fortíðina á jákvæðan hátt. Það getur falist í afturhvarfi til æskustöðva eða að leita ráða hjá forfeðrunum. Á þér hvílir sú ábyrgð að skila reynslu þinni og arfi til afkomenda. Vottaða forfeðrum, ættjörð og sögu virðingu, samhliða því að leggja rækt við heimili og fjölskyldu.

Loka annmarkar óðals; varaðu þig á fordómum sem skorta hefðbundin gildi manngæsku. Heimaríkir hundar boða slæm örlög.

Rúnin óðal hljómar sem bókstafirnir O - Ó, frumefni jörð, pólun karl, steinn silfurberg, rún Óðins.

Bú er betra,

þótt lítið sé

Halur er heima hver

Blóðugt er hjarta

þeim er biðja skal

sér í mál hvert matar


Lögur

Lögur II

Lögur – Laguz; flæði, vatn, það sem stýrir. Rúnin stendur fyrir þolinmæði og útsjónarsemi því dropinn holar steininn, vatn getur smogið víða þó farvegurinn sé ekki augljós. Lífið á jörðinni þróaðist af vatni og allar lífverur hafa lært að nýta sér eiginleika þess, t.d. er um 70% mannslíkamans vatn. Lögurinn (vatnið) uppfyllir þörf okkar fyrir flæði lífsins án þess að þurfa að vega og meta eða skilja. Lögur býr yfir hinu dulmagnaða minni, þar sem framtíðin er kölluð úr djúpi óendanlegrar fortíðar. Vatn er tákn undirmeðvitundarinnar, hinnar ómeðvituðu lífs orku. Allt líf er háð vatni því er lögur samnefnari alls lífs. Þó lögurinn sé grundvöllur lífs býr hann jafnframt yfir eyðandi mætti, sem getur birst með stjórnleysi eða skorti á sköpunargáfu.

Völuspá lagarins; lögur er rún djúprar þekkingar sem krefst þess að þú leggir rækt við andleg málefni og undirbúning sjálfsþroska. Árangur þinn byggist alfarið á innsæi þínu og að þú lagir þig að þínu eigin hljómfalli. Þar stendur lögur fyrir ímyndunarafli, draumum og öðru í þínu eðli sem ekki er auðvelt að henda reiður á. Þú ert kannski hæglátur og lætur lítið á þér bera, en stefnir samt að markmiðum þínum. Hið óþekkta er falið djúpt í undirvitund þinni; draumar, fantasíur, leyndardómar. Ímyndunaraflið er frjótt og þú ert skapandi, en þú þarft að gera ráðstafanir til að láta drauma þín rætast. Ræktaðu jafnframt líkamann, hugsaðu vel um heilsuna.

Loka annmarkar lagarins; gættu þín á þráhyggju og reyndu að sitja ekki fastur í sama fari. Leitaðu aðstoðar ef þunglyndi, ótti eða gæfuleysi af einhverju tagi banka upp á.

Rúnin lögur hljómar sem bókstafurinn L, frumefni vatn, pólun kona, steinn perla, rún Njarðar.

Sér hún upp koma öðru sinni

jörð úr ægi iðjagræna

Falla fossar, flýgur örn yfir

sá er á fjalli fiska veiðir


Björk

Björk II

Björk - Berkana; hæfileikar, þroski, sköpun, endurfæðing. Björk er ein af rúnunum sem mynda hringferli sjálfsþroska. Tákn kvenlegrar frjósemi sem stuðlar að vexti, kærleika og hógværð. Einnig stendur hún fyrir nytsemi, þolgæði og seiglu og ekki hvað síst er hún rún listrænna hæfileika og sköpunar. Björkin táknar endurnærandi hringrás árstíðanna, er ljós vorsins. Útsprungin björk er tákn um að sumarið sé loksins komið. Björkin hefur óbrigðult minni, lætur ekki plata sig og springur ekki út fyrr en vorhretin eru liðin hjá. Þessi rún bendir á mikilvægi þess að kafa djúpt, varlega og meðvitað.

Völuspá bjarkarinnar; hér er krafist hógværðar, þolinmæði, tillitsemi og gjafmildi. Sköpunargáfa þín og listrænir hæfileikar eru alls ráðandi. En fyrst þarf að uppræta andspyrnu, svo vinna megi verkið. Þú þarft að vera skýr og ákveðinn. Ef til vill ertu núna fyrst að uppgötva hæfileika sem þú býrð yfir, eða þeir komnir að því að blómstra. Þú finnur fyrir stig vaxandi framförum á flestum sviðum. Þú ættir því ekki að hræðast verkefni þó að þú vitir ekki hvernig þú eigir að takast á við þau. Það hvílir oft leyndardómur yfir því sjálfsagða sem þú ert aðeins fær um að uppgötva þegar á hólminn er komið, rétt eins björkin springur út þegar hún veit að sumarið er endanlega komið.

Loka annmarkar bjarkar; kvíði, höfnun, stjórnleysi. Forðastu ógreinileg markmið, kæruleysi og stöðnun. Ekki láta aðra ráðskast með þig og slepptu því að vera með óþarfa áhyggjur.

Rúnin Björk hljómar sem bókstafurinn B, frumefni jörð, pólun kona, steinn mánasteinn, rún Friggjar.

Bjarkan er laufgat lim

ok lítit tré

ok ungsamligr viðr

abies buðlungr


Hagl

Hagl

Hagl – Hagalaz; lögmál náttúrunnar, upplausn, eyðing. Hagl er rún náttúruaflanna, óviðráðanlegra krafta sem einstaklingurinn hefur enga stjórn á, s.s. veður eða náttúruhamfarir. Orka haglsins er algerlega ópersónuleg, því er það utan mannlegs máttar að afstýra afli þess. Höglin meiða með sinni stingandi hörku og ekkert annað við því að gera en leita skjóls á meðan élið gengur yfir, á eftir má má líta á höglin sem frækorn sem koma til með að umbreytast í nærandi vatn. Rétt er að hafa í huga að andleg vakning sprettur úr jarðvegi erfiðleika. Hagl leiðir því til breytinga sem geta allt eins leitt til aukins frelsis og þekkingar. Hugvit og lausnir eru hugtök sem tengjast þessari rún.

Völuspá haglsins; hvers vegna að reyna að bjarga því sem ekki er viðbjargandi ef það eyðileggur þig? Hagl táknar breytingar, er rún átaka sem brýtur niður mynstur þess sem var. Þó þú upplifir óþægindi því samfara er ekki líklegt að þú verðir fyrir varanlegum skaða. Hugvit, og lausnir eru hugtök sem tengjast þessari rún. Hún bendir til brýnnar þarfar sálarinnar til að losa sig úr fjötrum hins veraldlega og upplifa æðri veruleika. Hugsanlega finnst þér eins og þú sért smá saman að koma til sjálfs þín, eins og þú værir að vakna af löngum dásvefni. Alheimurinn og sál þín krefjast þess að þú takir við þér og þroskist. Þekking og innri styrkur er þín vörn.

Loka annmarkar haglsins; gættu þín á að festast ekki í aðstæðum sem virðist sjálfsagðar. Farðu varlega í samskiptum og kannaðu vandlega uppruna upplýsinga, ekki taka óþarfa áhættu.

Rúnin hagl hljómar eins og bókstafurinn H, steinn sjóam, frumefni vatn, rún Heimdallar.

Hagall er kaldakorn

ok krapadrífa

ok snáka sótt

grando hildingr


Sunna

Sunna II

Sunna –Sowilo; lífsorka, árangur, heilbrigði, bjartsýni, von og vöxtur. Sunna er rún sólarinnar, frumorku alls lífs. Þetta er rún bjartsýni, vaxtar og velgengni, þegar markmiðum skal náð. Sunna vísar til sólarhjólsins sem drífur hringrás orkunnar. Meining rúnarinnar er af sumum talin eiga samsvörun sem andleg íhugun í orkustöðvum Chakra. Það er hverjum manni mikilvægt að vera andlega sjálfstæður og geta treyst eigin dómgreind. Nasistar notuðu Sunnu í sinni táknfræði og brengluðu notagildi hennar. Tvöföld krosslögð myndaði rúnin hinn illræmda hakakross og hlið við hlið var hún tákn SS-sveitanna.

Völuspá sunnu; felur í sér hvötina til sjálfsþekkingar og bendir á leiðina sem hentar. Náttúröflin eru þér hliðholl og lífi þínu má líkja við bjartan og hlýjan sumardag. Það sem þú reynir að vera, er í raun og veru það sem þú ert í innsta eðli þínu. Sunna er mögnuð rún sem gefur kraft, markar tíma uppbyggingar og endurnýjunar frá grunni. Undir áhrifum hennar ertu heppinn, sigursæll, fullur orku og bjartsýni. Svo allt gangi upp þarftu hugsanlega að hleypta sólageislum inn í þann hluta lífs þíns sem hefur verið lokaður af, og viðurkenna eitthvað sem hingað til hefur verið afneitað. Gefðu af þér, vertu hlýlegur leyfðu kærleika að flæða um þig og frá þér.

Loka annmarkar sunnu; sýndarmennska, ósanngirni og hégómi. Forðastu dramb og hroka, gættu þess að láta velgengni ekki blinda þig svo að þú brennir ekki upp á skömmum tíma.

Rúnin sunna hljómar sem bókstafurinn S, steinn rúbín, frumefni loft, rún Þórs.

Sá er sæll

er sjálfur um á

lof og vit meðan lifir

Því að ill ráð

hefir maður oft þegið

annars brjóstum úr


Mennska

Mennska II

Mennska – Mannaz: er Asks og Emblu og þeirra afkomenda. Rúnin stendur fyrir sjálfsmynd einstaklingsins viðhorfi hans til annarra og þeirra til hans. Vitundar, félagslegrar stöðu, mannlegra þarfa og alls þess mannlega. Mennska hefur að gera með tilfinningalega greind og kunnáttu til að draga ályktanir. Mennskunni má líkja við hrafna Óðins, Hugin sem var hugsunin og Munin sem hafði mynnið. Eins er rétt að hafa í huga að rúnin hefur tengingu í Mímisbrunn sem gaf Óðni aðgang að óskráðri visku alheimsvitundarinnar, nátengdu hugtakinu akashic record í Sanskrít.

Völvuspá menskunnar; Þú leitar viðurkenningar í félagskap við aðra. Ástundaðu sjálfsskoðun, þig gæti skort sjálfstraust og verið einmana þó ekki sé ólíklegt að þú eigir mikil samskipti við annað fólk og eigir á meðal þess verndara og velvildarmenn. Það sem hjálpar er skýr hugsun og vilji til að breyta. Ræktaðu þau vináttusambönd sem þú þegar hefur, vertu hvorki þröngsýnn né áfellast aðra, leitaðu sjálfur eftir félagskap. Leitastu við að vera viðmótsþýður, trúr og hófsamur, hverjir sem kostir þínir eru, þannig mótarðu jákvæða stefnu í þínu lífi. Rétt samband við sjálf þitt er mjög mikilvægt, á því byggirðu samband þitt við æðri máttarvöld. Leggðu þig fram um að lifa venjulegu lífi á óvenjulegan hátt.

Loka annmarkar mennsku; þunglyndi, sjálfseyðingarhvöt, lævísi, slægð, röng reikningsskil. Forðastu harkalega sjálfsgagnrýni og einmanaleika.

Rúnin mennska hljómar sem bókstafurinn M, steinn demantur, frumefni loft, rún Heimdallar, Óðins og Frigg.

Vin sínum

skal maður vinur vera

og gjalda gjöf við gjöf

Hlátur við hlátri

skyli höldar taka

en lausung við lygi


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband